Sölsa auglýsingamarkaðinn undir sig

AFP

Google og Facebook munu hala inn 84% auglýsingatekna á heimsvísu að Kína undanskyldu á þessu ári samkvæmt spá auglýsingarisans GoupM. Það rennir stoðum undir áhyggjur um að fákeppni milli tæknifyrirtækjanna tveggja sé að myndast á auglýsingamarkaði. 

Þetta kemur fram í frétt Financial Times þar sem greint er frá spá GroupM. Samkvæmt spánni aukast útgjöld til auglýsinga  á næsta ári um 4,3% sem nema tæpum 2.400 milljörðum króna. 

„Mesti vöxturinn er í stafrænum auglýsingum og þar ráða Google og Facebook,“ segir Adam Smith, stjórnandi hjá GroupM. „Útgáfufyrirtæki fá aðeins brot af auglýsingaútgjöldum fyrirtækja.“ 

Hann segir að Amazon sé líklegast til þess að grípa hlutdeild af Google og Facebook þar sem fyrirtækið búi yfir miklum gögnum um notendur sem nota leitarvél þess til að afla upplýsinga um tilteknar vörur. 

Búist er við að vöxtur tekna af sjónvarpsauglýsingum verði um 0,4% á þessu ári og 2,2% á næsta ári. Það er langtum minna en vöxtur tekna af stafrænum auglýsingum en gert er ráð fyrir að hann verði 11,5% í ár og 11,3% á næsta ári. Það hefur í för með sér að í árslok 2017 munu stafrænar auglýsingar hafa tekið fram úr hefðbundnum auglýsingum í 17 löndum, þar á meðal í Bretlandi og Þýskalandi. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir