Kröfur starfsmanna Fréttatímans nema tugum milljóna

Fréttatíminn.
Fréttatíminn. Mynd úr safni.

Samþykktar forgangskröfur lífeyrissjóða og launþega á hendur þrotabúi Fréttatímans nema um 60 milljónum króna en í heild nema lýstar kröfur á hendur félaginu 236 milljónum.

Skiptastjóri búsins sagði í samtali við mbl.is að lýstar forgangskröfur hefðu í fyrstu numið 78 milljónum en þær hefðu verið lækkaðar niður í 60 milljónir.

Hann sagði að of snemmt væri að segja til um hversu miklar eignir væru til skiptanna upp í lýstar kröfur, engin afstaða hefði enn verið tekin til þeirra. 

Morg­undag­ur ehf., út­gáfu­fé­lag Frétta­tím­ans, var tekið til gjaldþrota­skipta í byrjun júlí eftir árangurslausar tilraunir til að end­ur­skipu­leggja rekst­ur­inn og end­ur­reisa blaðið. Síðasta tölu­blað Frétta­tím­ans kom út 7. apríl. Þá hafði hluti starfs­manna ekki enn fengið greidd laun fyr­ir mars­mánuð.

Gunn­ar Smári Eg­ils­son, eig­andi og fyrrverandi rit­stjóri Frétta­tím­ans, hafði þá stigið til hliðar og hætt af­skipt­um af út­gáf­unni. Eftir fréttaflutning af ógreiddum launum starfsmanna blaðsins kvaðst Gunnar Smári hafa notað restina af sparifénu sínu upp í ógreiddu launin.

Ekki full trygging

Launakröfur eru forgangskröfur við gjaldþrot fyrirtækja sem þýðir að slíkar kröfur eru greiddar fyrst séu einhverjar eignir fyrir hendi í þrotabúinu. Ef þrotabúið er hins vegar eignalaust eru launakröfur tryggðar hjá Ábyrgðarsjóði launa.

Hjálm­ar Jóns­son, formaður Blaðamanna­fé­lags Íslands, sagði í samtali við mbl.is í vor að Ábyrgðarsjóður launa tryggði ekki laun fólks nema að takmörkuðu leyti. Laun upp að 385 þúsund krón­um á mánuði væru tryggð hjá sjóðnum.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir