Fyrsta skrefið í átt að geimiðnaði á Íslandi

Prófanir á gervitungli í Frakklandi.
Prófanir á gervitungli í Frakklandi. AFP

„Þessi markaður er mældur í milljörðum Bandaríkjadala. Ef okkur tekst að móta langtímastefnu til að ná í smá sneið af honum þá getur það skipt miklu fyrir Ísland,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- fjarskiptastofnunar. 

Póst- og fjarskiptastofnun og fyrirtækið ManSat hafa gert með sér samkomulag um að byggja upp þekkingu á skráningu gervihnattatíðna og kanna hvort fýsilegt sé að taka upp afgreiðslu slíkra skráninga hér á landi.

„Það sem við sjáum í þessu eru að útvíkka okkar þjónustu. Þetta er líka gert í tengslum við þingsályktunartillöguna um að við tökum þátt í starfi Evrópsku geimvísindastofnunarinnar. Þar eigum við möguleika á að spila hlutverk.“

Tíðnir fyrir fjarskiptasendingar gervitungla eru skráðar hjá Alþjóðafjarskiptasambandinu (ITU) og geta aðildarríki sambandsins lagt fram umsóknir um slíkar skráningar.

„Þetta snýst annars vegar um samskipti milli gervitungla og hins vegar samskipti frá gervitungli niður á jörð,“ segir Hrafnkell og bætir við að um langtímaverkefni sé að ræða þar sem skráningin taki að meðaltali sjö ár. 

Eftir miklu að slægjast

Hrafnkell segir að tækifærin séu mikil og nefnir Lúxemborg þar sem uppbyggingin hefur verið hröð. 

„Lúxemborg hefur byggt upp geimiðnað hjá sér mjög kerfisbundið og það eru þúsundir manns sem starfa þar við slíkan iðnað í dag. Hér getur risið samskonar starfsemi, til dæmis stöðvar sem taka við merkjum frá gervitunglum. Við erum að búa til jarðveg fyrir frækorn sem geta með tíð og tíma orðið að einhverju.

Hann tekur fram að stofnunin beri enga fjárhagslega áhættu af verkefninu og að það feli ekki í sér neinar skuldbindingar. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir