Hætta útgáfu AmEx-korta

Frá kynningu á fyrstu útgáfu American Express-kreditkorta á Íslandi.
Frá kynningu á fyrstu útgáfu American Express-kreditkorta á Íslandi. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Kreditkort, sem er í eigu Íslandsbanka, mun á næstunni senda öllum viðskiptavinum sínum sem eru handhafar Icelandair American Express-korta bréf þar sem tilkynnt verður að útgáfu kortanna verði hætt. Þetta herma heimildir ViðskiptaMoggans, sem út kom í morgun.

Ákvörðunin mun hafa áhrif á á annan tug þúsunda korthafa sem á síðustu árum hafa notið ríkulegra fríðinda á grundvelli fyrrnefndra korta. Hefur Kreditkort hafið útgáfu á nýrri MasterCard vörulínu sem ætlað er að leysa af hólmi American Express-kortin.

Ástæða þess að útgáfu kortanna verður hætt er sú að innan skamms verða innleiddar tvær reglugerðir Evrópusambandsins er varða kortaviðskipti í aðildarríkjunum og á EES-svæðinu. Fyrri reglugerðin setur ný viðmið um milligjöld í kortaviðskiptum og segja heimildir ViðskiptaMoggans að reglurnar komi mjög illa við þá uppbyggingu sem American Express byggir tekjuöflun á. Síðari reglugerðin þvingar kortafyrirtækin til að veita samkeppnisaðilum aðgang að þeim kerfum sem þau keyra starfsemina á. Er reglugerðinni ætlað að auka samkeppni á markaðnum. Mun American Express ekki fella sig við þær kvaðir og hyggst því draga sig út af evrópska markaðnum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir