Flugvirkjar Icelandair boða til verkfalls

Icelandair-þota á Keflavíkurflugvelli.
Icelandair-þota á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Félagar í Flugvirkjafélagi Íslands (FVFÍ) sem starfa hjá Icelandair ehf. hafa boðað til verkfalls ótímabundið frá klukkan 06:00 að morgni þann 17. desember. Kosning um verkfallið hófst á miðvikudaginn og stóð þangað til í dag. Greint er frá verkfallinu í tilkynningu frá Icelandair til Kauphallarinnar rétt í þessu.

Fyrr í vikunni var greint frá því að bréf hefði verið sent til ríkissáttasemjara vegna kosningarinnar, en ákveðið var að efna til hennar á stjórnarfundi FVFÍ á þriðjudaginn. 

Samn­ing­ar flug­virkja við Icelanda­ir losnuðu 31. ág­úst og var kjaraviðræðunum vísað til rík­is­sátta­semj­ara 8. sept­em­ber. Síðan þá hef­ur verið fundað margsinn­is, án ár­ang­urs. Ní­undi sátta­fund­ur flug­virkja og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, fyr­ir hönd Icelanda­ir, fór fram á mánu­dag­inn. 

Alls starfa 280 flug­virkj­ar hjá Icelanda­ir og í heild­ina eru rúm­lega 500 flug­virkj­ar í Flug­virkja­fé­lagi Íslands.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að samningaviðræður séu í fullum gangi og að félagið sé bjartsýnt á að samningar náist þannig að ekki komi til röskunar á flugi. 

„Ef af verkfalli verður hefur það mikla röskun í för með sér, það er ekkert öðruvísi.“

Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við mbl.is að öðru leyti en því að þetta væri niðurstaða atkvæðagreiðslunnar. Spurður um framhaldið sagði hann:

„Við höfum svo sem ekki fengið það neitt staðfest en við eigum von á því að það verði boðaður fundur um helgina af hálfu Icelandair.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir