Hvetja fyrirtæki að koma þessu í lag

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/GudmundurKR

Atvinnurekendum ber að útbúa áhættumat og skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þar sem koma skal fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Félags atvinnurekenda sem var samþykkt í dag vegna #metoo umræðunnar í samfélaginu. 

„Það er lykilatriði að það sé skýr starfsmannastefna og það liggi fyrir áætlun svo það sé ljóst að hegðun af þessu tagi er ekki í boði og að það hafi afleiðingar. Allir verða að vita hvernig ferlið er sem fer í gang þegar kvörtun liggur fyrir, hvert þeir eigi að snúa sér og það liggi skýrt fyrir hvernig henni fylgt eftir,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. 

Hann tekur sem dæmi að ef starfsmaður verði fyrir áreitni af hendi yfirmanns síns þá viti hann hvert eigi að leita. Hann yrði jafnframt öruggur um að kvörtunin fái efnislega meðferð og allar aðgerðir í framhaldinu séu skráðar niður. Slíkt sé mikilvægt. 

Reglugerð samþykkt fyrir tveimur árum

„Það hefur ekki komið nógu skýrt fram að það eru ríkar skyldur á vinnuveitendum samkvæmt lögum og reglugerðum um að tryggja að fólk sé öruggt í vinnunni," segir Ólafur og vísar til reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Sú reglugerð var samþykkt fyrir tveimur árum. 

„Í ljósi þessarar umræðu hvetjum við fyrirtækin okkar eindregið að koma þessum hlutum í lag ef þau hafa ekki gert það nú þegar,“ segir Ólafur. Hann hefur grun um að fyrirtæki hafi ekki innleitt alla ferla sem kveðið er á um í reglugerðinni. „Við bendum líka á aðgengilegt efni bæði fyrir stór og smá fyrirtæki sem Vinnumálastofnun hefur gefið út sem fyrirtæki geta nýtt sér,“ segir Ólafur. Dæmi eru um að stærri fyrirtæki hafi nýtt sér þessa ferla, að sögn Ólafs. 

Skrifstofa FA býður félagsmönnum sínum að aðstoða fyrirtæki sem vilja koma þessum hlutum í lag. Ólafur bendir á að það sé ekki síður mikilvægt fyrir lítil fyrirtæki að þessir ferlar séu skýrir. 

„Ég geri fastlega ráð fyrir því mönnum ber bæði lagalega og siðferðisleg skylda til að hafa þessa hluti í lagi ef tímapunkturinn er ekki núna þá er hann aldrei,“ segir Ólafur spurður hvort hann búist við því að mörg fyrirtæki eigi eftir að nýta sér aðstoð félagsins. 

Í gær bentu Samtök atvinnulífsins fyrirtækjum á að taka á kynferðislegri áreitni og ofbeldi og segja „Mikilvægt að stjórnendur skoði vinnustaðamenningu á sínum vinnustöðum og hvernig er hægt að bæta hana, draga úr hættu á særandi framkomu og að málefni þolenda verði í forgangi þegar brot koma upp.“ 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir