Fara fram á lögbann á afhendingu gagna

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fyrirtækið Lagardère Travel Retail, sem rekur tvö veitingahús, sælkeraverslun, kaffihús og bar á Keflavíkurflugvelli, hefur farið fram á að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setji lögbann á afhendingu Isavia á gögnum í tengslum við forval um leigu á aðstöðu undir verslunar- og veitingarekstur í flugstöðinni árið 2014. 

Kaffihúsið Kaffitár fékk ekki aðstöðu í flugstöðinni og hafa eigendur þess viljað fá aðgang að forvalsgögnunum síðan þá. Hefur málið meðal annars farið fyrir Samkeppniseftirlitið og úrskurðanefnd upplýsingamála sem nýlega úrskurðaði að Isavia hefði strikað yfir gögn sem ekki væru viðkvæmar viðskiptaupplýsingar þegar fyrirtækið afhenti Kaffitári umrædd gögn.

Frétt mbl.is: Kæra Isavia á ný

Óskaði Isavia í lok síðasta mánaðar eftir frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar úrskurðarnefndarinnar, en Isavia taldi misræmi í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og úrskurðarnefndarinnar og að sér væri óheimilt að afhenda gögn sem flokkist sem viðkvæmar samkeppnisupplýsingar og gæti slík deiling teljast til ólöglegs samráðs. Vildi Isavia því bíða niðurstöðu dómstóla um málið.

Lagardère rekur Mathús, Nord, Pure food hall, Segafredo og Loksins í flugstöðinni.

Frétt mbl.is: Gögn benda til alvarlegs lögbrots

Segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu að Isavia hafi undir höndum mikilvæg trúnaðargögn um fyrirtækið vegna forvalsins. „Um er að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar og viðskiptaskilmála um starfsemi Lagardère. Afhending gagnanna væri brot á trúnaðarskyldu Isavia við Lagardère en einnig á samkeppnislögum nr. 44/2005," segir í yfirlýsingunni.

Verslunar- og matsölurými í flugstöðinni er mjög vinsælt og var ...
Verslunar- og matsölurými í flugstöðinni er mjög vinsælt og var keppst um það árið 2014. Kaffitár telur að Isavia hafi gerst brotlegt við lög við mat á til­boðum og til­boðsgjöf­um í sam­keppni um leigu­rými. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þá kemur fram að Isavia hafi þegar afhent mikið magn viðkvæmra trúnaðargagna um fyrirtækin til keppinautarins. Þar hafi þó verið strikað yfir viðkvæmustu upplýsingarnar eftir tilmæli frá Samkeppniseftirlitinu. „Öll þau gögn, sem þegar er búið að afhenda, ættu að nægja til að varpa ljósi á hvað eina sem gerðist í aðdraganda og eftir forvalið árið 2014, en ekkert hefur komið fram um að eitthvað misjafnt, óeðlilegt eða ólöglegt hafi átt sér stað,“ segir í yfirlýsingu Lagardère.

Telur fyrirtækið afhendingu gagnanna geta valdið því óafturkræfu og ómetanlegu tjóni fyrir starfsemi félagsins: „Fyrirhuguð afhending trúnaðargagna í heild sinni af hálfu Isavia til samkeppnisaðila Lagardère, er til þess fallin að valda óafturkræfu og ómetanlegu tjóni fyrir starfsemi Lagardère. Því hefur beiðni um lögbann á Isavia um afhendingu þessara gagna verið lagt fram.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir