Átta milljónir í áfengi og leigubíla

Fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ráðuneytin keyptu áfengi og leigubílaþjónustu fyrir 8 milljónir á síðustu fjórum mánuðum en mestar tekjur af ráðuneytunum hafði hugbúnaðarfyrirtækið Hugvit. 

Þessar upplýsingar má nálgast á vefsíðunni Opnirreikningar.is sem var komið á laggirnar í haust. Þar koma fram sundurliðaðar upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta úr bókhaldi ríkisins sem ná aftur til 1. ágúst. 

Í heild hafa innkaup ráðuneytanna á vörum og þjónustu numið 413 milljónum króna á tímabilinu. Eins og áður sagði hafa ráðuneytin keypt mest af hugbúnaðarfyrirtækinu Hugvit sem þróar og þjónustar mála- og skjalastjórnunarkerfið GoPro. Greiðslur til þess námu 19,3 milljónum. 

Næst kemur Eik fasteignafélag sem hafði 18,6 milljónir í tekjur af leigusamningum við ráðuneytin á þessum fjórum mánuðum, síðan TM Software með 17,5 milljónir og mannauðsráðgjafarfyrirtækið Attentus með 13,2 milljónir. 

Tvær milljónir í áfengiskaup

Ráðuneytin keyptu vörur í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins fyrir rétt rúmar tvær milljónir, eða um hálfa milljón á hverjum mánuði. Mest munar um staka pöntun utanríkisráðuneytisins frá 6. nóvember sem hljóðar upp á meira en eina milljón króna.

Kaup á leigubílaþjónustu hjá Hreyfli námu 5,9 milljónum króna sem gera 49 þúsund krónur á hverjum degi að meðaltali. Greiðslur til tónlistarhússins Hörpu námu 2,7 milljónum en langstærsti liðurinn var fundargjald upp á 2,2 milljónir sem stílað var á umhverfis- og auðlindaráðuneytið. 

Þá má finna reikning frá Bláa lóninu upp á 400 þúsund krónur, stílaðan á Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Er skýring færslunnar „Risna, önnur“.

Uppfært: 

Upphaflega kom fram að milljón króna reikningur frá ÁTVR væri stílaður á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Hið rétta er að reikningurinn var stílaður á utanríkisráðuneytið. Einnig var kostnaður vegna Bláa lónsins ranglega stílaður á fjármála- og efnahagsráðuneytið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK