Færri gistinætur ferðamanna í nóvember

Gistinóttum erlendra ferðamanna á Íslandi fækkaði í nóvember miðað við …
Gistinóttum erlendra ferðamanna á Íslandi fækkaði í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gistinætur á hótelum í nóvember síðastliðnum voru 304.000, sem er sami fjöldi og í nóvember í fyrra. Þegar aðeins er litið á fjölda gistinátta sem skráðar voru á erlenda ferðamenn fækkaði þeim um 1% milli ára. Heilt á litið er fækkun á höfuðborgarsvæðinu en fjölgun á landsbyggðinni. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði hins vegar um 7%. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar.

Um 69% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 210.000, sem er 4% fækkun frá fyrra ári. Nokkur fjölgun varð á gistinóttum frá nóvember fyrra árs á Norðurlandi (15%), Suðurnesjum (12%) og Suðurlandi (10%).

Um 89% gistinátta voru skráðar á erlenda ferðamenn, en erlendum gistinóttum fækkaði um 1% frá nóvember í fyrra meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 7%. Bretar gistu flestar nætur (86.500), síðan Bandaríkjamenn (74.900) og Þjóðverjar (11.900), en gistinætur Íslendinga voru 33.800.

Á tólf mánaða tímabili, frá desember 2016 til nóvember 2017, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.251.000 sem er 13% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Herbergjanýting í nóvember 2017 var 62,9%, sem er lækkun um 5,0 prósentustig frá nóvember 2016 þegar hún var 67,9%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 5,1% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 80,5%.

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK