Nýherji og dótturfélög verða að Origo

Samruni Nýherja, Applicon og TM Software undir merkjum Origo tók …
Samruni Nýherja, Applicon og TM Software undir merkjum Origo tók formlega gildi 1. janúar 2018. Ljósmynd/Origo

Nýherji og dótturfélögin Applicon og TM Software hafa sameinast undir nafninu Origo. Samruni Nýherja, Applicon og TM Software tók formlega gildi 1. janúar 2018.

Í tilkynningu frá Origo segir að markmiðið með sameiningunni sé að nýta styrkleika fyrirtækjanna þriggja til þess að skapa heildstætt framboð lausna í upplýsingatækni og efla þjónustu við viðskiptavini enn frekar.

Lausnaframboð Origo mun ná til flestra sviða upplýsingatækni, svo sem hýsingar- og rekstrarþjónustu, eigin hugbúnaðarþróunar og -lausna frá samstarfsaðilum, viðskiptalausna og innviða upplýsingakerfa. Auk þess mun Origo selja búnað og lausnir til fyrirtækja og einstaklinga frá mörgum af fremstu framleiðendum heims.

Lausnaframboð Origo verður víðtækara en hjá félögunum Nýherja, Applicon og TM Software hverju fyrir sig. Nýtt nafn og vörumerki, Origo, var valið til að endurspegla sem best fjölbreyttara lausnaframboð og skarpari áherslur í þjónustu en ekki síst til að fylkja samhentum hópi starfsfólks undir eitt merki.

Orðið Origo kemur úr latínu og merkir uppruni, upphaf eða uppspretta og er því við hæfi í upplýsingatækni, þar sem þróun og nýsköpun eru forsendur árangurs. Nafnið á sér stutta sögu innan samstæðunnar, en Origo var eitt af dótturfyrirtækjum TM Software þegar Nýherji keypti félagið í byrjun árs 2008.

Origo kemur úr latínu og merkir uppruni, upphaf eða uppspretta.
Origo kemur úr latínu og merkir uppruni, upphaf eða uppspretta.

„Þó að okkur hafi gengið vel með rekstur í aðskildum félögum teljum við mikla möguleika felast í sameiningu; með því að stilla upp heildstæðara lausnaframboði fyrir viðskiptavini, með markvissu markaðs- og sölustarfi, einfaldara skipulagi og auknu hagræði í rekstri,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Origo, í tilkynningunni.

Hann segir að markmiðið sé að búa til alhliða þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni. „Við viljum vera fyrsta val viðskiptavina í upplýsingatækni, skilja viðfangsefni þeirra, veita framúrskarandi þjónustu og bjóða snjallar lausnir, hvort sem þær eru okkar eigin eða frá öflugum samstarfsaðilum. Við höfum metnað fyrir því að viðskiptavinir okkar upplifi ekki eingöngu aukna breidd í starfsemi okkar, heldur einnig meira frumkvæði, nýsköpun og snerpu í þjónustunni, sem er nauðsynleg til að bregðast við þörfum atvinnulífsins í dag,“ segir Finnur.

Hjá Origo starfa 440 manns, langflestir í Reykjavík en einnig á Akureyri, Egilsstöðum, í Neskaupstað og á Ísafirði.

Dótturfélög Origo eru Applicon Svíþjóð og Tempo. Hlutabréf Origo eru skráð í Kauphöll Íslands og námu tekjur Origo árið 2017 um 12,5 milljörðum króna en tekjur samstæðunnar, með dótturfélögum, námu ríflega 15 milljörðum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK