Glæpamenn gefa bitcoin upp á bátinn

AFP

Rafmyntin bitcoin hefur tapað vinsældum hjá glæpamönnum. Þeir voru helstu kaupendur og notendur bitcoin til þess að byrja með en nú kjósa þeir fremur rafmyntir með aðra eiginleika. 

Þetta kemur fram í frétt Bloomberg þar sem fjallað er nánar um málið. Þar segir að rafmyntir eins og monero, sem erfitt sé að rekja, hafi hækkað meira en bitcoin á síðustu tveimur mánuðum. Monero fjórfaldaðist í verði á síðustu tveimur mánuðum ársins 2017 á meðan bitcoin tvöfaldaðist. 

Glæpamenn eru sagðir nota bitcoin í minni mæli vegna þess að bitcoin er byggt þannig að hægt er að rekja færslurnar og greinendur rafmyntamarkaða hafa orðið sífellt betri í að koma auga á grunsamlegar tilfærslur. 

Monero dulkóðar hins vegar reikning viðtakanda og hylur reikning sendanda og gerir færsluna þannig órekjanlega. Fyrr í vetur varaði Europol við því að rafmyntir á borð við monero, ethereum og Zcash hefðu orðið sífellt vinsælli í undirheimunum. 

Tölvuþrjótar sem sýkja tölvur og heimta lausnargjald til þess að koma þeim í lag hafa til dæmis beðið um að lausnargjaldið verði greitt í monero. Skaparar monero segjast hafa skapað rafmyntina til þess að verja einkalíf fólks og að flestir noti hana í löglegum tilgangi. 

„Við tölum svo sannarlega ekki fyrir því að glæpamenn noti monero,“ segir einn skapara monero. „Hins vegar er ekki hægt að koma í veg fyrir notkun þegar um er að ræða dreifstýrða rafmynt. Ég get ímyndað mér að monero gagnist glæpamönnum mun betur en bitcoin og því sækir þeir í hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK