Hefur vaxið um 30% á ári eftir 180° beygju

Uppgangur ferðaþjónustufyrirtækisins Another Iceland hefur verið ævintýralegur á síðustu árum. Fyrirtækið hefur frá upphafi einbeitt sér að sölu til ísraelskra ferðamanna, þar sem fólk ekur bílaleigubílum sjálft um landið, svokölluðum „Self Drive Tours“. Tvö ár eru síðan félagið færði út kvíarnar og hóf einnig að selja Íslandsferðir utan Ísraels. 4.000 manns komu á vegum félagsins til Íslands á síðasta ári.

Guy Gutraiman, framkvæmdastjóri og eigandi Another Iceland, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að þó svo að hann hafi verið í sölumennsku nær allt sitt líf hafi það ekki endilega verið ætlunin í upphafi. „Eftir að hafa gegnt hermennsku í Ísrael og ferðast um Suður-Ameríku í kjölfarið fluttist ég til New York þar sem ég vann í heildverslun hjá frænda mínum. Hann seldi aðallega vörur til bensínstöðva, en reksturinn hafði gengið heldur illa. Ég samdi við hann um að taka við rekstrinum og fá þá afraksturinn ef betur gengi, en ef fyrirtækið yrði selt á endanum fengi hann allt söluandvirðið. Þetta gerði ég í nokkur ár. Það næsta sem tók við hjá mér var fasteignasala, en ég þekkti mann í New York sem vann á fasteignamarkaði. Þetta var þónokkru fyrir hrun, líklega í kringum 2002. Fasteignaverð var mjög lágt í borginni á þessum tíma, en fljótlega eftir að ég byrjaði fór það að stíga. Þessum kunningja mínum gekk mjög vel og ég sá að það var hægt að hafa góðar tekjur af þessu,“ segir Guy.

Hann segir að fyrirkomulagið hafi verið þannig að um 60 fulltrúar hafi unnið á fasteignasölunni, en vinur hans hafi síðar verið ráðinn til að stýra nýju útibúi og Guy hafi farið að vinna með honum þar. „Hann efnaðist mjög hratt á þessu. Mér gekk ágætlega líka, en á endanum fékk ég nóg af Bandaríkjunum og flutti heim til Ísraels á ný. Ég hafði ekki áhuga á að stofna fjölskyldu þarna. Mér líkaði ekki lífsstíllinn nógu vel og fannst þetta vera augnablikið þar sem ég þyrfti að ákveða hvort ég ætti að fara eða vera. Ég fór, og ákvað að snúa algjörlega við blaðinu og skrá mig í heimspekinám í háskóla í Jerúsalem.“

Kynntist sambýliskonu sinni á netinu

Guy segir að heimspekin hafi alltaf heillað sig. „Eftir að hafa verið í svona ati og unnið myrkranna á milli við fasteignasölu vildi ég fara í eitthvað þar sem ég þyrfti að nota heilann, eitthvað sem ég hefði áhuga á. Ég átti líka smá sparifé og hafði efni á að fara í nám án þess að steypa mér í skuldir. Hugsunin var líka að taka mér smá frí, enda var ég ekki með neina fjölskyldu á þessum tíma eða aðrar skuldbindingar.“

Meðan á náminu stóð hitti Guy íslenska sambýliskonu sína á netinu. Í kjölfarið kom hann nokkrum sinnum til Íslands og ákvað að lokum að flytja til unnustunnar, sem bjó á þeim tíma í Ólafsvík. „Ég hætti í heimspekináminu, enda vissi ég að það myndi aldrei geta orðið alvörustarfsferill. Ég gerði þetta fyrir sjálfan mig, og fannst það gaman.“

Guy segir að oft sé erfitt að vera útlendingur á Íslandi og hér hafi hann upplifað meiri einangrun og erfiðleika við að aðlagast en annars staðar þar sem hann hefur búið. Hann segir að það sé reyndar að vissu leyti sér sjálfum að kenna, enda hafi hann ekki lagt sig nóg eftir að læra íslenskuna. „Starfið mitt fer líka fram á ensku og hebresku. Ég kenni dætrum mínum tveimur hebresku, en hef kannski ekki alveg nógu mikla þolinmæði, né tíma, til að læra sjálfur íslenskuna. Auk þess tala allir ensku hér.“

Hann segir að eftir að hafa kynnst því að vinna baki brotnu í miklum erli frá morgni til kvölds sex daga vikunnar í New York hafi það verið mikil umskipti að flytjast til Ólafsvíkur, eftir viðkomuna í heimspekinni í Jerúsalem. Það hafi verið krefjandi lífsstíll að vera fasteignasali í New York á þessum árum. „Það varð 180° breyting á lífi mínu eftir að ég kom til Ólafsvíkur. Ég fékk fljótlega vinnu í sundlauginni og vann þar á lágmarkslaunum, en á móti kom að það var ódýrt að búa á Ólafsvík og ég var ekki kominn með nein börn á þeim tíma. Ég vann því í lauginni, las bækur, kíkti í tölvuna og tók því rólega. Á þessum tíma vissi enginn í Ísrael neitt að ráði um Ísland. Það var nánast engar upplýsingar að hafa um landið. Þegar ég kom hingað áttaði ég mig á hvað Ísland er magnaður staður. Ég byrjaði að skrifa bloggfærslur á hebresku um landið. Ég skrifaði um einstaka staði á landinu og svo fór ég að taka eftir því að færslurnar urðu vinsælli og vinsælli og ég fékk meiri og meiri athygli í Ísrael. Í framhaldinu fór ég að gera eins konar leiðbeiningabækling um Ísland á hebresku eftir að hafa sankað að mér miklu magni af upplýsingum um ýmsa staði hér á landi og það sem var í boði fyrir ferðamenn. Ég fékk mikil og góð viðbrögð við þessum leiðbeiningum og sumir fóru að að biðja mig að skipuleggja ferðir um landið fyrir sig. Á þeim tíma hafði ég ekki ferðast sjálfur að neinu ráði um landið og fannst ég því ekki tilbúinn í slíka skipulagningu. Það kom svo að því að sumir af þeim fáu Ísraelum sem sóttu landið heim á þessum tíma fóru að koma til Ólafsvíkur til að hitta mig. Þeir höfðu séð á blogginu að ég byggi í þessum bæ og spurðust fyrir um mig. Allir á staðnum vissu að ég ynni í sundlauginni og þannig kom fólk bæði þangað og heim til mín, oft án þess að gera boð á undan sér. Einnig var mikið hringt og sendur tölvupóstur. Þarna fór ég að átta mig betur á möguleikunum sem lægju í ferðamennskunni.“

Guy segir að þegar fólk byrjaði að biðja hann að skipuleggja fyrir sig ferðir hafi hann í raun ekki vitað hvernig best væri að snúa sér í því. „Ég ákvað að byrja á að reyna að ná sambandi við íslenska ferðaþjónustuaðila og sendi tölvupóst á ótal staði. Ég sagði í póstinum að ég gæti boðið þeim aðgang að nýju markaðssvæði fyrir Ísland. Ég vildi þróa hugmyndina og bauð þeim mína þjónustu. Ég myndi setja saman ferðir og senda þeim og þeir myndu svo greiða mér þóknun fyrir ferðirnar. Ég fékk engin svör. Ég varð algjörlega steinhissa, því fyrirtækin höfðu engu að tapa. En að lokum svaraði einn aðili, og þannig byrjaði þetta, en ég lærði mikið á öllu þessu ferli.“

Hann segir að í kjölfarið hafi hann keypt sér jeppa og ferðast um landið þvert og endilangt til að þekkja öll svæði gaumgæfilega. „Ég vildi geta gefið viðskiptavinum mínum sem nákvæmastar upplýsingar. Ég fór og skoðaði öll hótel, rannsakaði öll svæði og ferðaðist um landið eins og brjálæðingur. Ég bókstaflega hljóp af einum stað á annan til að vita hve langan tíma tæki að fara frá þessum stað á hinn staðinn. Fólk spyr gjarnan: Hve langan tíma tekur að ganga frá þessum stað að þessum, og þá vil ég geta gefið góðar upplýsingar og vera með öll svör á hreinu. Það sama á við um hótelin; ég þarf að þekkja þau til að geta sagt fólki hvernig þau eru. Ég er meira að segja kominn með reynslu af að festa jeppann minn í á! Þá hugsaði ég, þar sem ég sat bjargarlaus uppi á þaki bílsins: Vonandi eru engir Ísraelar hér nálægt! En auðvitað var það þannig að mér var bjargað af leiðsögumanni sem var þar á ferð með hóp af Ísraelum,“ segir Guy og hlær.

„Svona byrjaði AnotherIceland.com og þetta óx mjög hratt. Ég vann samt áfram í sundlauginni og sinnti ferðaþjónustunni samhliða með leyfi míns yfirmanns þar. Ég byrjaði líka að auglýsa og varð var við mikla eftirspurn. Í raun vissi ég samt ekki alveg við hverju væri að búast, en fyrsta ferðin sem ég seldi skilaði mér álíka miklu í tekjum og ég hafði haft á hálfu ári í sundlauginni. En auðvitað var óvissa fyrir hendi og vinnan í lauginni gaf mér nauðsynlegt öryggisnet.“

Gosið í Eyjafjallajökli varð happadrjúgt

Hann segir að velgengnin hafi haldið áfram, þar til honum fannst viðskiptin orðin það stöðug og örugg að honum fannst óhætt að segja starfi sínu í sundlauginni lausu. „Það var stórt skref fyrir mig. Samhliða fór ferðaþjónustan á Íslandi almennt á flug, ég var því mjög heppinn. Svo fór að gjósa í Eyjafjallajökli þarna árið 2010, sem varð mér enn happadrjúgt, sérstaklega hvað markaðssetningu í Ísrael varðaði.“

Gosið hófst á öðru ári fyrirtækisins. „Eftir að gosið hófst var mikið fjallað um það í alþjóðlegum fjölmiðlum. Hingað til lands kom vinsæll ísraelskur sjónvarpsþáttur með sitt tökulið og það fyrsta sem þau gerðu var að leita á Google hvort einhver Ísraeli væri búsettur á Íslandi sem gæti verið þeim innanhandar og verið með þeim í útsendingunni. Ég var sá eini sem kom upp í þeirri leit og þau höfðu samband og sögðust vera að fara að gera þessa heimildarmynd um gosið og spurðu hvort ég vildi koma og vera með þeim og ég var til í það. Með þessu fékk ég mjög góða kynningu í Ísrael. Þetta var einnig mikilvægt til að öðlast meira traust. Margir voru kannski ekki vissir í upphafi hvort þeir ættu að treysta mér fyrir greiðslukortinu sínu, en þarna náði ég að byggja upp mikinn trúverðugleika.“

Það má því segja að fyrirtækið hafi fengið fljúgandi start. „Þetta var mjög góð byrjun. Ísraelski markaðurinn byggist mikið á meðmælum; að fólk segi öðru fólki frá upplifunum sínum af ferðalögum. Og þannig var þetta með ferðirnar sem ég skipulagði og seldi. Það fór gott orð af þeim og þær spurðust vel út. Það er mjög gott að fá fólk þannig til að selja hlutina fyrir sig.“

Guy segir að fljótlega hafi stórar ísraelskar ferðaskrifstofur einnig komið auga á tækifærin í Íslandsferðum. „Þau sáu þarna vaxandi markað og þá beina menn eðlilega athyglinni þangað. Þessi fyrirtæki fóru að bjóða upp á margs konar ferðir. Þetta kom mér líka til góða því markaðssetningin á landinu í Ísrael jókst að sama skapi. En það sem ég hafði fram yfir alla aðra sem voru að bjóða svona ferðir var að ég bjó á staðnum. Ég gat selt fólki þá staðreynd að ég byggi á Íslandi og væri sérfræðingur í því. Auk þess líkaði fólki þjónustan mjög vel og fannst ferðirnar góðar. Þannig fékk ég góð meðmæli, sem skipti miklu máli.“

Guy hefur frá upphafi unnið náið með einu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, Iceland Travel. „Þau keyptu fyrirtækið mitt næstum því á tímabili, en í dag er ég feginn að hafa ekki selt. Við vorum orðin ásátt um verð og allt var nánast frágengið. Iceland Travel er leiðandi fyrirtæki og ég er með sérstaka deild þar innanhúss sem sér um mínar bókanir. Þetta veitir mér mikinn stuðning. En þjónusta mín við mína viðskiptavini er mjög persónuleg. Það fá allir persónulega þjónustu og vegna samstarfs míns við Iceland Travel er öll ferðin mjög traust og trygg. Ef eitthvað kemur upp á, eins og flóð eða þvíumlíkt, þá er auðvelt að breyta ferðatilhögun með hraði.“

Sú breyting varð nú nýverið á starfsemi Another Iceland að farið var að bjóða ferðir á alþjóðamarkaði. „Þetta byrjaði eiginlega þannig að fólk sem hafði keypt af mér ferðir fór að mæla með ferðunum við ættingja sína í Bandaríkjunum til dæmis, og þeir fóru því að senda mér óskir um sérsniðnar ferðir. Málið er að ég tel mig vera með mjög góða vöru. Ef hún er borin saman við önnur fyrirtæki, þá er hún mjög samkeppnishæf. Verðið er gott, varan er góð, og því hugsaði ég sem svo að auðvelt gæti verið að selja ferðirnar hvar í heiminum sem er. Ég fékk mág minn og gamlan skólafélaga í Ísrael til að sjá um þann hluta af viðskiptunum og hann er núna kominn inn í fyrirtækið með mér.“

Alþjóðlega salan fór vel af stað

Hann segir að salan utan Ísraels hafi gengið mjög vel. „Á fyrsta árinu fékk ég meiri tekjur úr þessum hluta en ég fékk út úr ísraelsku sölunni á fyrsta ári, og var umfram væntingar.“

Guy og félagi hans nota leitarvélabestun og netmarkaðsmál með góðum árangri. „Vefsíðan er önnur leitarniðurstaðan í Google-leitarvélinni þegar leitað er að „Self Drive Tours“ á Íslandi, sem er mjög erfiður markaður, því mörg gamalgróin fyrirtæki hafa selt slíkar ferðir hingað í mörg ár.“

Hagstæðar leitarniðurstöður skapa mikla umferð á vefsíðunni að sögn Guys, og vöxturinn á heimsóknum er góður.

Guy sjálfur notar ekki Facebook og segist hafa komist af án þess hingað til, en aftur á móti notar félagi hans í Ísrael Facebook óspart til markaðssetningar. „Annars eru Ísraelar miklu meira á WhatsApp en Facebook. Þar eru allir með það spjallforrit.“

Ferðirnar sem Another Iceland sérhæfir sig í eru eins og fyrr sagði svokallaðar Self Drive Tours, þar sem viðskiptavinir eru á eigin vegum og aka sjálfir um landið á bílaleigubílum. „Við sérsníðum ferðir fyrir alla okkar viðskiptavini, það er okkar sérstaða. Þetta getur verið tímafrekt þar sem við gerum ferðaáætlun í smáatriðum, þannig að nákvæmar leiðbeiningar bíði fólks um leið og það lendir í Keflavík. Þetta er mikil þjónusta og fólki er sagt hvert á að keyra, hvað á að sjá, hvar á að stoppa og hvar á að sofa o.s.frv. Þetta eru mjög hentugar ferðir fyrir fólk sem ekki getur lagt á sig mikinn undirbúning, en getur í staðinn treyst á góðar leiðbeiningar. Ferðaáætlun frá a-ö bíður þess þegar það lendir.“

Spurður hvernig hann geti sem best áttað sig á óskum viðskiptavinanna, hvað þeir hafi áhuga á að gera á Íslandi, segist Guy vita ýmislegt í gegnum skráningarnar á vefsíðunni, eins og aldur, kyn og fleira. „Í mörgum tilvikum hringi ég í viðskiptavinina til að spjalla við þá um hvað þeir vilja og þá er mikilvægt að spyrja réttu spurninganna. Svo er ég með ríkulegar upplýsingar á vefsíðunni ásamt verði og þar eru þessar ferðir tíundaðar meðal annars á korti. Svo eftir að fólkið er komið til Íslands er ég með þjónustu allan sólarhringinn ef eitthvað kemur upp á.“

Viðskiptavinum Another Iceland frá Ísrael hefur fjölgað hratt í gegnum árin. Að sögn Guys komu nokkur hundruð fyrsta árið en núna skipta viðskiptavinirnir þúsundum. Vöxturinn hefur verið um 30% á ári. „Það eru kannski þrjú þúsund viðskiptavinir frá Ísrael sem koma á þessu ári og um 1.000 frá öðrum löndum, en þetta er annað árið sem við bjóðum ferðir til fólks utan Ísraels. Ég held að sá hluti muni vaxa og verða stærri en ísraelski hlutinn. Það er a.m.k. framtíðarmarkmiðið.“

Aðspurður segist hann ekki hafa nákvæmar upplýsingar um hve margir ísraelskir ferðamenn komi hingað til lands á hverju ári, enda séu þeir ekki taldir sérstaklega í Leifsstöð. „Samkvæmt Wikipedia eyða Ísraelar mestum tíma allra þjóða í ferðalög hér á landi. Fólk frá Bandaríkjunum og Evrópu eyðir að jafnaði fimm til sex dögum hér á landi en Ísraelar tveimur til þremur vikum. Líklega er þetta út af því að ferðalagið hingað er langt og menn vilja fá sem mest út úr því fyrst þeir eru komnir hingað á annað borð.“

Aðspurður segir Guy að líklegast sé hann umsvifamestur í þessum Self Drive Tours til Íslands í Ísrael. Samkvæmt heimasíðu félagsins kostar dýrasta ferðin, svokölluð Iceland Complete 4x4 Adventure, 3.521 evru á mann eða 435 þúsund krónur. Þeirri ferð er lýst sem „hinni fullkomnu ferð“; ævintýralegri 17 daga ferð þar sem ferðast er vítt um landið á jeppa. Ódýrustu ferðirnar eru tvær sjö daga ferðir, annars vegar svokölluð Iceland Express-ferð, þar sem helstu perlur hringinn í kringum landið eru skoðaðar, og The South & West-ferðin, þar sem staðir á Suður- og Vesturlandi eru skoðaðir. Þær ferðir kosta rúmar 1.000 evrur, eða 133 þúsund krónur á mann, með bíl og gistingu inniföldu.

Guy segir að margir Ísraelar kjósi að koma hingað í hópferðum og ferðast með öðrum löndum sínum um landið í rútum. „Ég er ekkert í slíkum ferðum. Mínar ferðir eru fyrir þá sem vilja frekar vera á eigin vegum og blandast meira menningunni á staðnum meðan á ferðinni stendur.“

Spurður um áhrif þess að flugfélagið WOW air hefur hafið beint flug á milli Íslands og Ísraels segist Guy vænta þess að ísraelskum ferðamönnum fjölgi hér á landi. „Kosturinn við ísraelska markaðinn er að af því að hann er svo nýr hér á Íslandi mun hægjast seinna á ferðamannastraum þaðan en frá öðrum mörkuðum. WOW air auglýsir mikið í Ísrael þessa dagana og ég á von á því að þar með verði Ísland enn betur kynnt í landinu fyrir vikið, og þar með gæti eftirspurn eftir mínum ferðum einnig aukist.“

Ísland hefur upp á margt að bjóða

Varðandi framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi, sem hefur vaxið hratt á síðustu árum, segir Guy að fréttir af dýrtíð hér á landi hafi smitast út fyrir landsteinana og það hafi áhrif. „En ég held að Ísland hafi margt að bjóða og margir vilji heimsækja landið. Ég held að ferðaþjónustan muni halda áfram að vaxa, en líklega ekki á sama hraða og verið hefur. Fólkið sem kemur hingað á mínum vegum er alltaf heillað af því sem það upplifir. Og þegar allt kemur til alls talar fólkið ekki um hvað allt var dýrt hér á landi heldur um hvað allt er frábært hér og segir öðrum frá þegar heim er komið. Viðbrögðin hafa alltaf verið mjög jákvæð. Ísland er einstakt land. Erlendis eru svo margir staðir eins, og svo lengi sem menn fá ekki þá tilfinningu á Íslandi dregur það að. Við megum aldrei komast á þann stað að fólki finnist við bara vilja hirða sem mesta peninga af gestunum.“

Seldi pósthússtarfsmanna þrjú hús

Guy segist sjá samsvörun með reynslu sinni af vinnu á fasteignamarkaðnum í New York og því að vinna í ferðamennskunni á Íslandi, einkum hvað uppgang greinanna varðar.

„Ég byrjaði þegar verðið var lágt, en svo hætti ég rétt áður en húsnæðisbólan sprakk og fjármálakerfið hrundi. Margir vinir mínir lentu illa í því. Að hluta vorum við sem unnum í þessum geira ábyrgir fyrir mörgu sem segja má að hafi lagt líf fólks í rúst.

Til að nefna einhver dæmi um hvað tíðkaðist í þessum bransa og ég tók þátt í, og þótti eðlilegt, var að ég seldi konu sem vann á pósthúsi og var með 60 þúsund bandaríkjadali í laun á ári, þrjú hús, þar af tvö sem voru í slæmu ásigkomulagi. Hún vildi verða fjárfestir og leigusali. Lánin voru svo ódýr að í raun var nóg að eiga 2.000 dali til að geta keypt sér hús. Við, eins og aðrir á þessum tíma, seldum fólki þá hugmynd að hægt væri að kaupa hús, leigja það út, og leigan myndi svo borga bæði afborganir af húsinu og útborgunina. Svo myndirðu verða leigusali, nokkuð sem alla dreymir um.

Það er auðvelt að ímynda sér hvernig fór fyrir þessari konu í hruninu, sem keypti húsin þrjú. Hún varð gjaldþrota, eins og svo margir aðrir í sömu stöðu. Það voru ótal svona dæmi í Bandaríkjunum. Við seldum mörgu fólki hús sem hefði aldrei annars getað keypt sér hús. Þetta var allt samþykkt af bönkunum. Þeir fengu sína þóknun og höfðu engan sérstakan áhuga á því hver var að kaupa. Og þannig varð til keðjuverkun sem á endanum varð kerfinu að falli. Ferðabransinn er hinsvegar allt öðruvísi,“ segir Guy.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK