Felldu niður færslu upp á 739 milljónir

AFP

Yfirskattanefnd hefur fellt niður tekjufærslu á söluhagnaði hlutabréfa kaupsýslumanns að fjárhæð 739.086.497 krónur. Kröfu kaupsýslumannsins varðandi dráttarvexti er vísað frá yfirskattanefnd en að öðru leyti er kröfum hans hafnað. Þetta kemur fram á vef yfirskattanefndar en samkvæmt Fréttablaðinu í dag er umræddur kaupsýslumaður og kærandi Karl Wernersson. 

Þar kemur fram að skattframtalning Karls Wernerssonar vegna aflandsfélags síns Dialog Global Investment Ltd. (DGI), sem skráð var á Bresku-Jómfrúareyjum, hafi ekki verið í samræmi við lög. Úrskurðurinn féll 20. desember og var birtur á vef yfirskattanefndar í síðustu viku.

Í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum hans fyrir  árin 2005-2009 endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld Karls vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008.

Í úrskurði yfirskattanefndar segir:

Í málinu var m.a. deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna í almennu skattþrepi tekjuskatts greiðslur frá X Ltd., sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, sem kærandi hafði tilfært sem arð frá félaginu í skattframtölum sínum.

Í ljósi þess sem fyrir lá um starfsemi X Ltd. á því tímabili sem málið varðaði, og þar sem kærandi hafði ekki lagt fram nein samtímagögn, svo sem afrit stjórnarsamþykkta, til stuðnings kröfu sinni, var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að virða bæri greiðslur X Ltd. til hans í heild eða að hluta sem arðgreiðslur. Þá var kærandi sömuleiðis ekki talinn hafa sýnt fram á með gögnum að vaxtatekjur vegna lánveitingar hans til Y ehf. á árinu 2006 tilheyrðu í reynd X Ltd. Var því ekki hróflað við tekjufærslu ríkisskattstjóra á vaxtatekjunum í skattframtali kæranda árið 2007.

Á hinn bóginn var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna söluhagnað vegna sölu Z Ltd., félags í eigu kæranda sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, á hlutabréfum í E hf. og G hf. á árinu 2006 felld niður. Kom fram að gögn málsins, þar með talið tilkynningar Kauphallar Íslands, bentu eindregið til þess að Z Ltd. hefði verið kaupandi hlutanna í öndverðu. Var ríkisskattstjóri ekki talinn hafa sýnt fram á það að skattleggja bæri söluhagnað vegna sölu hlutabréfanna hjá kæranda persónulega. Kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags var hafnað og kröfu hans um útreikning dráttarvaxta var vísað frá yfirskattanefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK