N1 landaði eldsneytissamningi við WOW

AFP

Flugfélagið WOW air hefur samið við N1 og Air BP um útvegun flugvélaeldsneytis á Keflavíkurflugvelli. Þetta staðfestir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, í samtali við mbl.is. Hún segir að samningarnir hafi tekið gildi 1. janúar síðastliðinn og gildi í eitt ár eins og venjan hafi verið. 

Viðskiptablaðið greindi frá því í lok nóvember að Skeljungur hefði misst samninga við Icelandair og WOW air en Skeljungur og WOW air höfðu átt í samstarfi frá því að flugfélagið hóf áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli. Stuttu síðar sagði Vísir frá því að Icelandair hefði samið við Statoil um milliliðalaus kaup á flugvélaeldsneyti fyrir flota fyrirtækisins.

Air BP er deild innan olíufélagsins BP sem sérhæfir sig í útvegun flugvélaeldsneytis. Hún er einn stærsti þjónustuaðilinn á heimsvísu í þeim geira.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir