Sparar ríkinu allt að 85 milljónir króna

Við undirritun samninga.
Við undirritun samninga. Ljósmynd/Opin kerfi

Ríkiskaup hafa gert tvo rammasamninga um miðlægan tölvubúnað og er getur sparnaður ríkisins af samningunum numið allt að 85 milljónum króna á ársgrundvelli. 

Um er að ræða samninga sem snúa að gagnageymslum og netþjóna. Samið var við forgangsbirgi í hvorum samningi um sig, við Nýherja hf. í gagnageymslum og við Opin kerfi hf. um netþjóna.

Í samningnum um netþjóna eru Opin kerfi hf. skilgreind sem forgangsbirgir Ríkiskaupa næstu þrjú árin. Kaupandi skal eiga viðskipti við forgangsbirgi þegar verðmæti fyrirhugaðra kaupa er undir 500.000 krónum, svo fremi sem varan sem um er að ræða geti nýst og henti í tæknilegu umhverfi hans. Aðrir birgjar eru TRS ehf., Sensa ehf. og Nýherji hf.

Samningar voru undirritaðir í kjölfar útboðsferlis sem lauk nýverið og er markmiðið með þeim að tryggja ríkisstofnunum hagkvæmara verð á miðlægum tölvubúnaði. Allar stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins á hverjum tíma eru aðilar að rammasamningum ríkisins.

Í tilkynningu frá Ríkiskaupum er haft eftir Halldóri Ó. Sigurðssyni forstjóra að samningar af þessu tagi séu góð leið til að draga úr og halda í við kostnað í rekstri ríkisins og einfalda innkaupaferla. Tilboð fyrirtækjanna tveggja hafi verið vel undir kostnaðaráætlun og geti áætlaður sparnaður ríkisins numið allt að 85 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK