Íbúðaverð á niðurleið

Verð á bæði sérbýli og fjölbýli lækkar á milli mánaða.
Verð á bæði sérbýli og fjölbýli lækkar á milli mánaða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% milli mánaða í nóvember og var það í fyrsta skipti sem lækkun mælist milli mánaða síðan í apríl 2015. Í fyrsta skipti síðan í júní 2014 lækkuðu bæði fjölbýli og sérbýli í verði milli mánaða. Sex mánaða hækkun íbúðaverðs er nú aðeins 1,8%, samkvæmt nýjustu tölum og hefur sá hækkunartaktur minnkað mjög mikið síðan í sumar. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

„Aukin ró á fasteignamarkaði er í takt við væntingar greiningaraðila, meðal annars þar sem íbúðaverð hafði hækkað talsvert umfram helstu undirliggjandi þætti síðasta vetur og vor.

Í ljósi sögunnar gætu sumir orðið varir um sig nú þegar mælist lækkun milli mánaða í kjölfar mikilla hækkana.

Í sögulegu samhengi er ekki óalgengt að vísitala íbúðaverðs lækki milli mánaða, jafnvel á tímabilum þar sem fasteignaverð er almennt á uppleið. Síðan árið 1996, og að undanskildu tímabilinu 2008-2010 þegar fasteignaverð var á niðurleið, hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað milli mánaða í 19% tilvika.

Undanfarin tvö og hálft ár, þar sem fasteignaverð hækkaði viðstöðulaust milli mánaða, heyra því að þessu leyti frekar til undantekninga,“ segir í skýrslunni.

Alls 578 kaupsamningum með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu var þinglýst í nýliðnum desembermánuði sem eru 16% færri samningar en í nóvember og 20% færri samningar en í desember árið 2016.

Fjöldi kaupsamninga utan höfuðborgarsvæðisins í desember var hins vegar svipaður og í sama mánuði árið 2016. Á öllu árinu 2017 var 6.914 kaupsamningum þinglýst með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, sem er 7% fækkun frá árinu 2016. Kaupsamningum með íbúðarhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins fjölgaði hins vegar um 4% milli ára og voru þeir samtals 3.727 í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK