Meirihluti ferðamanna borðar íslenskt lamb

Við Fljótaá í Fljótum.
Við Fljótaá í Fljótum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Meira en helmingur erlendra ferðamanna borðar íslenskt lambakjöt samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir markaðsstofuna Icelandic Lamb í nóvember og desember 2017. 

50% borða lambakjöt á veitingastöðum en 13% borða lambakjöt sem keypt er í búð. Nokkur skörun er á milli þessara hópa en samtals borða 54% þeirra erlendu ferðamanna sem koma til Íslands einhvern tímann lambakjöt í ferðinni, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandic Lamb. Líkurnar aukast eftir því sem þeir dvelja lengur á landinu.

Markaðsstofan Icelandic Lamb rekur markaðsherferð til að kynna íslenskar sauðfjárafurðir fyrir erlendum ferðamönnum og er öll markaðssetningin undir sérstöku merki Icelandic Lamb. Gallup kannaði þekkingu erlendra ferðamanna á merkinu.

Alls þekktu 27% svarenda merkið. Af þeim sögðust 48% hafa mjög jákvætt viðhorf til þess. 25% sögðust hafa nokkuð jákvætt viðhorf en 26% hvorki jákvætt né neikvætt viðhorf gagnvart merkinu.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir