Hver er þessi maður?

Vörur sem Lactalis framleiðir.
Vörur sem Lactalis framleiðir. AFP

Emmanuel Besnier, afkomandi fjölskyldunnar sem stendur á bak við stærsta mjólkurafurðafyrirtæki heims, Lactalis, fer ekki hátt og er oft kallaður ósýnilegi milljarðamæringurinn. Það gæti reynst erfitt á næstunni eftir að salmonellusýking kom upp í verksmiðju fyrirtækisins sem framleiðir þurrmjólk fyrir börn. Lactalis keypti nýverið Siggi's skyr sem Sigurður Hilmarsson stofnaði í New York fyrir nokkrum árum.

Besnier var boðaður á fund fjármálaráðuneytisins í dag vegna sýkingarinnar en hann hefur nánast aldrei komið fram opinberlega frá því hann tók við starfi forstjóra fyrirtækisins 29 ára gamall. Hann er nú 47 ára. 

AFP

Lactalis var stofnað árið 1933 af afa Besniers og hefur á þessum tíma vaxið í að verða stærsta mjólkurfyrirtæki heims með 17 milljarða evra veltu á ári. Fyrirtækið er með 246 verksmiðjur í 47 ríkjum og er listinn langur yfir vörumerki þess, svo sem President og Societe.

Tvö af vörumerkjum Lactalis, Picot og Milumel, hafa verið mjög í fréttum að undanförnu vegna sýkingar og innköllunar á þurrmjólkurdufti í kjölfar þess að tugir barna veiktust í Frakklandi.

Alls hafa 36 börn veikst af salmonellusýkingu og hefur fyrirtækið sent frá sér ítrekaðar afsökunarbeiðnir vegna málsins.

Lactalis.
Lactalis. AFP

Staða Lactalis er ekki mjög sterk í huga almennings í Frakklandi þessar vikurnar eftir að vikuritið Le Canard Enchaine birti frétt um að heilbrigðiseftirlitið hefði gefið út heilbrigðisvottorð fyrir verksmiðju Lactalis í Craon í september. Það þýðir að eftirlitið hefur ekki uppgötvað salmonellubakteríuna sem eftirlit fyrirtækisins sjálfs hafði greint í ágúst og nóvember úr sýnum frá verksmiðjunni. Málið var bara ekki tilkynnt til opinberra aðila. 

Fyrirtækið segir að það sé ekki ólöglegt að tilkynna ekki slíkt smit og það var ekki gert fyrr en börnin fóru að veikjast. Með vanrækslunni getur fyrirtækið átt von á málshöfðun og kröfu um greiðslu skaðabóta.

Ekki þykir hins vegar líklegt að Besnier muni breyta því hvernig hann rekur samsteypuna en hingað til hefur hann fremur kosið að greiða sektir fyrir að brjóta gegn lögum um birtingu fjármálaupplýsinga en koma fram opinberlega. 

„Afi hans heimsótti alla bændur og þekkti hvern framleiðanda. Hann; enginn hefur nokkurn tíma séð hann,“ segir forseti Bændasamtakanna í Mayenne-héraði, Philippe Jehan, en þar eru höfuðstöðvar Lactalis. Hann segist hafa unnið hjá samtökunum í meira en 20 ár og aldrei hitt forstjórann. Ekkert frekar en flestir starfsmenn Lactalis. Síðasta myndin sem birtist opinberlega af Besnier er meira en tíu ára gömul.

Hér er mynd Forbes af honum

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir