Lactalis innkallar þurrmjólk frá 83 löndum

Lactalis hefur innkallað þurrmjólkurformúlu sem seld var í 83 löndum.
Lactalis hefur innkallað þurrmjólkurformúlu sem seld var í 83 löndum. AFP

Franski mjólkurvöruframleiðandinn Lactalis hefur nú látið innkalla rúmlega 12 milljónir askja af þurrmjólk sem sendar höfðu verið til 83 landa, vegna salmonellusmits sem kom upp hjá fyrirtækinu.

Þetta staðfestir forstjóri fyrirtækisins, Emmanuel Besnier, í samtali við franska fjölmiðla. Greint var fyrst frá því í desember að innkalla þyrfti þurrmjólkina, en ekki lá þá fyrir hversu víða mjólkin hefði farið.

35 tilfelli um salmonellusmit hafa verið tilkynnt í Frakklandi og þá hefur verið tilkynnt um eitt tilfelli á Spáni og segir BBC foreldra nokkurra þeirra barna sem hafa smitast vera að undirbúa lögsókn á hendur fyrirtækinu.

Talsmaður Lactalis segir að yfirvöldum í öllum þeim ríkjum, sem mjólkin hafi verið seld í, hafi verið tilkynnt um innköllunina, en um er að ræða ríki í Evrópu, Asíu, Suður-Ameríku og Afríku.

Lactalis er einn stærsti mjólkurvöruframleiðandi í heiminum og greint var frá því á dögunum að fyrirtækið hefði keypt Siggi‘s skyr, sem Íslendingurinn Sigurður Hilmarsson stofnaði.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir