Breyta fylgjendum í peninga

Selena Gomez getur komið skilaboðum áleiðis til tuga milljóna fylgjenda.
Selena Gomez getur komið skilaboðum áleiðis til tuga milljóna fylgjenda. AFP

Sífellt stærri skerfur af auglýsingaútgjöldum fyrirtækja sem selja neysluvörur fer til svokallaðra áhrifavalda á samfélagsmiðlum. 

Í frétt Financial Times er fjallað um uppganginn í þessari ungu atvinnugrein og er hann rakinn til tækniframfara og grundvallarbreytinga á lúxusvörumarkaðinum. Vísað er til niðurstöðu rannsóknar sem sýnir að þúsaldarkynslóðin myndar um 30% af neyslunni á lúxusvörum.

„Þegar ég byrjaði snerist þetta um blogg en nú er sagan önnur með Snapchat, Youtube og Instagram,“ segir Olivier Billon sem rekur umboðsskrifstofu fyrir áhrifavalda. 

Á Instagram eru 800 milljónir notenda sem deila myndum og skoða myndir annarra. Samkvæmt könnun frá 2015 hafa 75% notenda orðið fyrir áhrifum af myndum á Instagram sem leiddu til þess að þeir heimsóttu vefsíðu eða keyptu vöru á netinu.

„Instagram er gegnsætt, það er auðvelt að meta umfang og gæði áhrifa með því að athuga fjölda og gerð fylgjenda,“ segir Billon. Hann mælir með því að fyrirtæki velji áhrifavalda sem hafi raunverulega ástríðu og áhuga á vörunni í stað þess að byggja valið einungis á fjölda fylgjenda. 

Milljónir fyrir hverja mynd

Áhrifavaldur með 100 þúsund fylgjendur á Instagram getur búist við því að þéna um 2 þúsund pund, eða um 280 þúsund krónur, fyrir hverja mynd. Frægt fólk með 4 til 20 milljónir fylgjenda geta hins vegar rukkað á bilinu 700 þúsund til 1,8 milljóna fyrir hverja mynd samkvæmt fyrirtækinu Hopper sem sér um keyptar auglýsingar á Instagram.

Fáir geta hins vegar fengið eins vel borgað og Selena Gomez með sína 132 milljónir fylgjenda en talið er að virði hverrar myndar á Instagram-reikningi Gomez sé um 78 milljónir króna. 

Þóknanir eru þó breytilegar eftir umfangi og gerð verkefnisins. Áhrifavaldar sem leitast við að auka áhrif og sýnileika gætu sumir viljað vinna kauplaust fyrir stór og traustverðug vörumerki. Í sumum tilfellum sjá fyrirtækin um að útvega fjölmiðlaumfjöllun um áhrifavalda í skiptum fyrir þjónustu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK