Fylkja heiminum undir #TeamIceland

Frá leik Íslands og Kósóvó í undankeppninni.
Frá leik Íslands og Kósóvó í undankeppninni. mbl.is/Eggert

Íslandsstofa ætlar að ráðast í stórfellda markaðsherferð i kringum þátttöku Íslands í heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Stjórnvöld eru reiðubúin að leggja allt að 200 milljónir til verkefnisins að því gefnu að fyrirtæki komi með annað eins á móti. 

Verkefnið var kynnt á fundi sem Íslandsstofa stóð fyrir í dag og bar yfirskriftina „HM 2018 - einstakt tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf“. 

Þórdís Kolbrún Reykjafjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra tilkynnti um vilja stjórnvalda til að styrkja verkefnið. Eins og áður sagði ætla stjórnvöld leggja allt að 200 milljónir til, krónu á móti krónu frá fyrirtækjum. 

„Þetta tækifæri verður nýtt á þann hátt að verkefnið Inspired by Iceland einbeiti sér í ár að því að tryggja að Ísland sýni sínar bestu hliðar í því kastljósi sem beinist að okkur á mótinu,“ sagði Þórdís. 

George Bryant frá auglýsingastofunni Brooklyn Brothers fór yfir leikáætlunina. Hann hóf erindi sitt á að benda á það að á meðan Ísland tók þátt í Evrópumótinu í Frakklandi 2016 hafi leitarfyrirspurnir um ferðir til Íslands á Google aukist um 73%. Jafnframt hafi verið birtar 152 þúsund fréttir um Ísland á þeim tíma og samsvari það 20 milljörðum króna í auglýsingavirði. 

Við höfum svo öfluga sögu að segja að ef við segjum hana rétt getum við auðveldlega fangað athygli og áhuga fólks,“ sagði George. 

Markmið herferðarinnar er styrkja ímynd og orðspor Íslands erlendis með því að fá umheiminn til þess að styðja Ísland á heimsmeistaramótinu og verður notast við #TeamIceland á samfélagsmiðlum. Þá eru ýmsar aðrar hugmyndir á borðinu, til dæmis að smíða smáforrit sem gefur útlendingum íslensk föður- eða móðurnöfn.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir