Framúrskarandi fyrirtækjum fjölgar ört

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.
Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo. mbl.is/Hanna

„Fjölgun framúrskarandi fyrirtækja er óvenjumikil í ár og við teljum að það sé til marks um stöndugra atvinnulíf og betra rekstrarumhverfi,“ segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.

Creditinfo stendur fyrir sérstökum viðburði í Hörpu á miðvikudaginn í næstu viku þar sem listinn yfir framúrskarandi fyrirtæki 2017 verður kynntur. Athygli vekur að þau eru 868 talsins og fjölgar ríflega frá síðasta ári, eða um 40%.

Heildstæð mynd af fyrirtækjum

Til að komast á listann þurfa fyrirtæki meðal annars að uppfylla skilyrði um meira en 20% eiginfjárhlutfall, eignir upp á a.m.k. 90 milljónir á síðasta rekstrarári og 80 milljónir tvö rekstrarár þar á undan og jákvæða rekstrarniðurstöðu síðustu þrjú ár. Ofan á það þurfa þau að hafa lánshæfismat á bilinu einn til þrír. Brynja segir að saman gefi þessir mælikvarðar heildstæða mynd af fyrirtækjunum.

„Það er ekki endilega verið að velja þau fyrirtæki sem hagnast mest. Einn af eiginleikum þessarar vottunar er að hún er ekki einungis vísbending um styrkleika heldur einnig stöðugleika. Við finnum fyrirtæki sem eru í góðum og stöðugum rekstri,“ segir Brynja. Því til stuðnings nefnir hún að í fyrra hafi Creditinfo gert úttekt sem sýndi að framúrskarandi fyrirtæki hefðu almennt komið mun betur út úr fjármálahruninu en önnur fyrirtæki. „Við vitum að þessi skilyrði virka.“

Útbúa lista víða um heim

Ísland er ekki eina landið þar sem Creditinfo tekur saman lista af þessu tagi. Brynja segir að fyrirtækið hafi útbúið listann í löndum þar sem það hefur starfsemi, til að mynda í Eystrasaltslöndunum, Rúmeníu og Kasakstan.

„Líkustu aðstæðurnar eru í Eystrasaltslöndunum þar sem vottunin hefur fest sig í sessi og þykir virðuleg. Þetta hefur gengið mjög vel enda er Creditinfo orðin viðurkennd upplýsingaveita á þessum mörkuðum.“

Eins og áður sagði verður haldinn viðburður í Hörpu þar sem listinn verður kynntur. Þetta er í áttunda sinn sem Creditinfo stendur fyrir vottuninni og segir Brynja að viðburðurinn verði viðameiri með hverju ári.

„Þetta hefur vaxið úr því að vera haldið í stærri gerðinni af fundarherbergi á Grand hóteli yfir í það að búast við yfir 800 manns í Hörpu í næstu viku til að fagna þessum framúrskarandi fyrirtækjum. Þetta er orðin mikil hátíð hjá okkur.“

Listanum gerð góð skil

Í Hörpu verða auk þess veitt verðlaun fyrir nýsköpun og ná þau til fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum að sögn Brynju, ekki einungis nýrra fyrirtækja. Einnig verða veitt verðlaun fyrir samfélagslega ábyrgð.

Þá hafa Morgunblaðið og Creditinfo gert með sér samning sem felur í sér ítarlega umfjöllun í miðlum Árvakurs um niðurstöður greiningar Creditinfo á framúrskarandi fyrirtækjum á Íslandi, umfjöllun um valin fyrirtæki og aðrar fróðlegar upplýsingar um íslenskt atvinnulíf og stjórnendur.

„Framúrskarandi fyrirtæki hefur fest sig í sessi sem einn af meginviðburðum atvinnulífsins á ári hverju,“ segir Sigurður Nordal, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu. „Viðburðurinn verður nú viðameiri en nokkru sinni áður og verður honum varpað beint á mbl.is. Samdægurs verður sérriti með ýmsum fróðleik um framúrskarandi fyrirtæki ársins dreift til áskrifenda Morgunblaðsins og inn á hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu.“

Sigurður segir viðurkenninguna mikilvæga þar sem hún ýti undir ábyrgan rekstur hjá minni sem stærri fyrirtækjum og veiti um leið vísbendingu um stöðu atvinnulífsins á hverjum tíma. „Fyrirtæki þurfa að sýna stöðugan og traustan rekstur í nokkur ár til þess að teljast framúrskarandi og slík fyrirtæki eru hornsteinar efnahagslegs stöðugleika,“ segir Sigurður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK