Notkun íslenskra debetkorta stórjókst erlendis

Aukin kortanotkun er meðal annars rakin til pantana á netinu.
Aukin kortanotkun er meðal annars rakin til pantana á netinu. mbl.is/Golli

Mikil veltuaukning íslenskra debetkorta erlendis á nýliðnu ári er að stórum hluta rakin til aukinnar netverslunar ungs fólks. Það hagnýtir sér í miklum mæli nýja tegund debetkorta sem gerir því kleift að versla á netinu.

Velta íslenskra debetkorta erlendis nam tæpum 43 milljörðum króna á síðasta ári. Jókst hún um ríflega 53% frá fyrra ári þegar hún nam rúmum 28 milljörðum króna.

Aukningin er margfalt meiri en kortanotkunin almennt. Þannig jókst notkun kreditkorta erlendis um tæp 11% milli ára. Nam hún um 102 milljörðum á nýliðnu ári, samanborið við ríflega 92 milljarða árið 2016. Þá jókst kortanotkun Íslendinga, bæði með debet- og kreditkort, um tæp 4,6% milli ára.

Þá miklu sprengingu sem orðið hefur í notkun íslenskra debetkorta erlendis má rekja til aukinna notkunarmöguleika kortanna, að sögn sérfræðings.

„Nú er farið að gefa út debetkort sem hafa að geyma fullt kortanúmer ásamt CVC-öryggisnúmeri og þessi kort er hægt að nota með alveg sama hætti og kreditkort bæði í verslunum erlendis og í netverslunum,“ segir Bjarki Már Flosason, þróunarstjóri greiðslulausna hjá Íslandsbanka.

Hann segir að hin nýja tækni hafi leitt til þess að fólk sé farið að nýta þessi kort í meira mæli, bæði á ferðum erlendis og á netinu en ítarlega er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir