Hvetja konur til að klæðast svörtu

Rakel Sveinsdóttir, formaður FKA, segir samfélagið þurfa að skilja að ...
Rakel Sveinsdóttir, formaður FKA, segir samfélagið þurfa að skilja að konum sé full alvara með MeToo-byltingunni.

Stjórn FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu, hvetur allar konur í íslensku atvinnulífi til að klæðast svörtu miðvikudaginn 31. janúar nk. Með þessu er markmiðið að konur sýni samstöðu sína og stuðning við #metoo-byltinguna.

„Nú þegar hefur fjöldinn allur af hugrökkum konum stigið fram með sínar sögur. Þetta eru konur á öllum sviðum atvinnulífsins á öllum aldri og alls staðar af landinu. Engin þessara kvenna stendur ein í sinni baráttu því að í #metoo stöndum við konurnar saman sem ein heild. Og í þetta sinn þarf samfélagið að skilja að okkur er full alvara með að hér muni ná fram að ganga, varanlegar breytingar í viðhorfum og valdbeitingu. Þess vegna klæðumst við konurnar svörtu þann 31. janúar næstkomandi,“ er haft eftir Rakel Sveinsdóttir, formanni FKA, í tilkynningu frá samtökunum.

Viðurkenningarhátíð FKA verður haldin 31. janúar, en það er stærsti viðburður félagsins ár hvert og vill stjórnin með vali sínu á degi undirstrika hve mikilvægt það sé að #metoo-byltingunni verði fylgt eftir í orði, í verki og af þeirri virðingu sem hún á skilið.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir