Breytt staða ef nýtt félag í bígerð

55 starfsmenn störfuðu hjá United Silicon. Félagið var sett í …
55 starfsmenn störfuðu hjá United Silicon. Félagið var sett í þrot í gær en Arion banki hefur hug á að stofna nýtt félag um eignirnar. Ljósmynd/Víkurfréttir

„Ef Arion banki er að taka yfir fyrirtækið aftur þá á ég frekar von á því að þeir muni bjóða öllum starfsmönnum áframhaldandi vinnu,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, um stöðu starfsmanna United Silicon. „Þannig að þetta ætti að skýrast í dag eða næstu daga. [...] Þessi frétt breytir stöðinni frá því í gær um að það kunni að vera eitthvað áframhald fyrir starfsmennina og það gleður mig mikið.“

Félagið lýsti sig gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Í frétt Morgunblaðsins í dag segir hins vegar að Arion banki ætli að óska eftir því við skiptastjóra þrotabúsins að ganga að veðum sínum í eignum fyrirtækisins, koma þeim í söluferli og fresta þess að koma kísilverinu aftur í gang. Miklar endurbætur standa fyrir dyrum og er það mat norska ráðgjafafyrirtækisins Multiconsult, sem rannsakað hefur tækjabúnað fyrirtækisins, að slíkt muni kosta um 3 milljarða króna og taka á annað ár. Í nýlegum úrskurði Umhverfisstofnunar kom fram að United Silicon fengi ekki heimild til að hefja framleiðslu á ný fyrr en að lokið væri við nær allar þær úrbætur sem Multiconsult lagði til.

Kristján segir að þegar fyrirtæki lýsir sig gjaldþrota fari af stað staðlað ferli. Starfsfólki er tilkynnt að fyrirtækið sé farið í þrot, ráðinn verði skiptaráðandi og að hann muni svo hafa samband við það „og annað hvort biðja það um að vinna áfram eða fara heim,“ segir Kristján. „Þeir sem fara heim eiga kröfu á að fá greiddan uppsagnarfrest.“

Á hraða snigilsins

Engin svör um framhaldið hafa enn borist frá skiptaráðanda að sögn Kristjáns. Hann segir  reynsluna sýna að mjög langan tíma, oft marga mánuði, geti tekið fólk að fá greiddan uppsagnarfrest. „Þetta gengur allt á hraða snigilsins finnst okkur. Fólk þarf að hafa lifibrauð.“

Kristján segist því ætla að fylgjast grannt með gangi mála. Hann segist í góðu sambandi við núverandi starfsmenn United Silicon og hafi hingað til fengið góðar upplýsingar. Frá því að fyrirtækið fór í greiðslustöðvun í lok ágúst hafa allir starfsmenn fengið greidd laun og öll opinber gjöld hafa verið greidd. Hann segir að einhverjir starfsmenn hafi hætt á þessu tímabili, eins og gangi og gerist. Starfsmennirnir voru um 60 í september en eru núna 55.

Árferðið gott til að fá ný störf

Mikill meirihluti starfsmanna United Silicon eru útlendingar að sögn Kristjáns. Flestir eiga fjölskyldu og eru búsettir í Reykjanesbæ eða nágrenni. Hann ítrekar að hvort sem um útlendinga eða Íslendinga sé að ræða séu réttindin í stöðu sem þessari þau sömu. 

Kristján segir starfsmennina flesta ekki hafa komið hingað sérstaklega til að vinna hjá United Silicon, auglýst hafi verið eftir starfsfólki hér á landi. Hann á því ekki von á því að fólkið fari úr landi, missi það vinnuna, heldur leiti sér að öðru starfi hér. Sem betur fer sé ástandið á vinnumarkaði gott og því líklegt að fólkið fái aðra vinnu.

Kristján segir að í vikunni muni líklega skýrast hver örlög starfsfólks United Silicon verði.

Ekki náðist í skiptastjóra þrotabús United Silicon við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK