Tilvalið að ráða starfsfólk United Silicon

Rekstrarsvið IGS eru fjögur: flugafgreiðsla, flugeldhús, veitingasvið og fraktmiðstöð.
Rekstrarsvið IGS eru fjögur: flugafgreiðsla, flugeldhús, veitingasvið og fraktmiðstöð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framkvæmdastjóri IGS telur það góða hugmynd að starfsfólk United Silicon verði ráðið til fyrirtækisins yfir háannatíðina í sumar í tengslum við uppsagnir vegna gjaldþrots United Silicon.

„Við höfum þurft að sækja fólk til útlanda þannig að það er ekki verra ef það er til hér á svæðinu,“ segir Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri IGS, sem annast ýmiss konar flugvallaþjónustu við flugfélög og farþega á Keflavíkurflugvelli. Það rekur til að mynda flugeldhús, tollvörugeymslur og fraktmiðstöð.

Öllum nema níu sagt upp 

Fram kom á vef RÚV að öllum starfsmönnum United Silicon nema níu verði sagt upp um mánaðamótin.

Fundur var haldinn með starfsmönnum í dag þar sem þetta var tilkynnt. Á bilinu 50 til 60 starfsmenn fá uppsagnarbréf á næstunni, að sögn Geirs Gestssonar, skiptastjóra þrotabús verksmiðjunnar.

Nauðsynlegt sé að hafa níu starfsmenn áfram í vinnu til að tryggja að verðmæti glatist ekki.

Beiðni um gjaldþrotaskipti í gær

United Silicon sendi beiðni um heimild til gjaldþrotaskipta í gær eftir að hafa verið í greiðslustöðvun frá því í ágúst. Meðan á greiðslustöðvuninni stóð gekkst starfsfólk verksmiðjunnar, alls 56 manns, undir ýmiss kon­ar þjálf­un í tengsl­um við verk­ferla, vinnu­vél­ar og eld­varn­ir svo fátt eitt sé nefnt, auk þess að hafa unnið við til­tekt og end­ur­bæt­ur. Nú er framtíð þess í höndum skiptastjóra. 

„Mér finnst þetta góð hugmynd og hún gæti hentað okkur ágætlega,“ segir Gunnar og bætir við að yfir sumarið þurfi IGS að bæta um 300 manns við starfshópinn vegna anna. „Það verður töluverður fjöldi fólks ráðinn í sumarvinnu í vor. Það liggur fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK