Hagnaður þrefalt meiri en tekjur

Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða.
Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða. Ljósmynd/Elsa Björg Magnúsdóttir

Meðal efstu félaga á lista Creditinfo í ár eru Félagsbústaðir, leigufélag í eigu Reykjavíkurborgar. Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, segir einkum hægt að skýra sterkan rekstrarreikning fyrirtækisins með hækkandi fasteignaverði. „Þegar fasteignaverð hækkar mikið kemur það inn í rekstur okkar sem matsbreyting og hefur veruleg áhrif á hagnað félagsins. Til að mynda var hagnaðurinn árið 2016 nærri því þrefalt meiri en tekjur félagsins.“

Þó svo að hækkað fasteignamat skapi dágóðan hagnað í bókhaldinu segir Auðun að þróunin komi sér ekki endilega vel fyrir félagið, enda Félagsbústaðir ekki reknir með hagnað að sjónarmiði heldur til að bjóða tekjulágum, öldruðum og fötluðum upp á hentugt húsnæði á viðráðanlegu verði: „Þegar fasteignaverð hækkar svona skarpt hækka fasteignagjöld og tryggingar um leið, og þurftum við að hækka leiguverð á síðasta ári til að halda rekstrinum sjálfbærum. Við vorum farin að sjá fram á að endar myndu ekki ná saman og urðum því að hækka leiguna um 5% í ágúst á síðasta ári. Önnur eins hækkun er í kortunum á þessu ári ef fram heldur sem horfir,“ útskýrir Auðun en bætir við að á almennum markaði sé að jafnaði 60% dýrara að leigja tveggja herbergja íbúð og 50% dýrara að leigja þriggja herbergja búð.

„Ef við værum fasteignafélag sem rekið er í hagnaðarskyni hefði væntanlega verið fýsilegt að selja eignir og greiða arð til eigenda en það samræmist ekki hlutverki okkar. Þvert á móti þýðir hærra fasteignaverð að dýrara verður fyrir okkur að stækka eignasafnið.“

Regluleg skuldabréfaútgáfa

Félagsbústaðir fögnuðu 20 ára afmæli í fyrra. Félagið annast eignarhald og rekstur á félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík auk þjónustuíbúða aldraðra og sértæks búsetuúrræðis fyrir fatlaða. Starfsmenn eru 23 talsins, um 2.500 íbúðaeiningar í eignasafninu sem samtals eru um 188.000 fermetra að stærð og metnar á um það bil 75 milljarða króna.

Fyrirhugað er að fjölga íbúðunum um rösklega 700 á næstu fimm árum en vegna nýlegra breytinga á lögum um almennar leiguíbúðir verður sú stækkun fjármögnuð með öðrum hætti en áður. „Í gegnum tíðina hefur félagið stækkað með því að Reykjavíkurborg hefur lagt til eigin fé og á móti verið tekin niðurgreidd lán hjá Íbúðalánasjóði fyrir 90% kaup- eða byggingarkostnaðar. Með nýja kerfinu getum við sótt um að fá 34% stofnframlag frá ríki og Reykjavíkurborg úr þar til gerðum sjóðum, og sækjum mismuninn inn á skráðan hlutabréfamarkað,“ segir Auðun, en stór hluti þeirra íbúða sem bætast við á næstu árum verður byggður í samvinnu við önnur fasteignafélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Í síðustu viku gáfu Félagsbústaðir í fyrsta sinn út skuldabréf og heppnaðist útboðið vel. Skuldabréfin bera 2,77% vexti en vextirnir sem félagið fékk áður hjá Íbúðalánasjóði voru 3,5%. „Við bjóðum fjárfestum upp á góðan langtíma-fjárfestingarkost sem felur um leið í sér stuðning við samfélagslega mikilvæg verkefni,“ segir Auðun. ai@mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir