„Skrúfa er ekki það sama og skrúfa“

Haraldur Leifsson, framkvæmdastjóri Würth á Íslandi.
Haraldur Leifsson, framkvæmdastjóri Würth á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Würth á Íslandi var stofnað árið 1988 og hefur þar af leiðandi þjónustað viðskiptavini sína í 30 ár. Fyrirtækið er hluti af hinni alþjóðlegu Würth-samsteypu en hún samanstendur af 413 fyrirtækjum í 84 löndum, með um það bil 77 þúsund starfsmenn. Viðskiptamódel Würth er nokkuð sérstætt, eins og Haraldur Leifsson, framkvæmdastjóri Würth á Íslandi, segir frá. Á þessum bæ er algert grundvallaratriði að eiga fyrir hlutunum. Arðsemiskrafan er hófstillt frá hendi samsteypunnar og ekki er leyfilegt að taka einhverja sénsa í rekstrinum, eins og Haraldur segir. Það er mikill agi og náið fylgst með rekstrinum. Þessi nálgun er að skila Würth á Íslandi í hóp framúrskarandi fyrirtækja á Íslandi, fjórða árið í röð.

„Würth á Íslandi er dæmigerð starfseining fyrir samsteypuna og í raun erum við öll að gera það sama,“ segir Haraldur, spurður um fyrirtækið hér á landi í samanburði við það sem erlendis þekkist. „Við erum að selja lausnir fyrir iðnaðarmenn, verkfæri, kítti, vinnufatnað og í raun allt sem þarf til að koma hlutunum saman.“

Til marks um umfang starfseminnar er sú staðreynd að samsteypan er alls með um 125 þúsund vörunúmer og fyrirtækið á Íslandi er með um 9 þúsund slík. „Fjöldi, stærð og velta eru hlutir sem skipta ekki öllu máli í samhenginu. Ef það verða frávik frá væntri afkomu þarf maður að útskýra hvernig á þeim stendur, standa skil á því gagnvart samsteypunni. Það er lagt upp úr því að starfsumhverfið sé gott, starfsmenn séu ánægðir og allir séu að sinna sínu. Þá eru allir hamingjusamir,“ bætir Haraldur við.

Fyrirtæki þjónustuð með persónulegum hætti

Haraldur bendir ennfremur á að Würth séu með mottó sem fangi í raun það sem fyrirtækið vilji standa fyrir. Það er gæði, hraði og þjónusta.

„Þetta er markmið fyrirtækisins á heimsvísu. Gæðin eru númer eitt, tvö og þrjú; hraðinn á að vera með þeim hætti að ef verktaka vantar eitthvað frá okkur þá fær hann það mjög fljótt, og loks að þjónustan sé hundrað prósent og með þeim hætti að viðskiptavinir komi alltaf aftur.“

Það kemur á daginn að fyrirtækið er um margt sérstakt og rekstrarformið án hliðstæðu hér á landi. „Starfsemin gengur út á það að helmingurinn er sölumenn og þeir fara að heiman frá sér á morgnana og sinna sínu tiltekna sölusvæði. Hver þeirra er með á bilinu 70-150 fyrirtæki á sinni könnu. Sölumennirnir þjónusta þessi fyrirtæki með persónulegum hætti, fara til þeirra og skoða lagerstöðuna hverju sinni hjákomandi fyrirtæki. Eftir þörfum fylla þeir á, kynna nýjungar og eru bara í viðvarandi þjónustu. Fyrirtækin þurfa þá ekki að vera senda menn hingað og þangað um bæinn að sækja hluti. Þvert á móti þá komum við til fyrirækjanna og sjáum til þess að staðan sá ávallt góð.“

Heimsóknir sölumanna eru þar af leiðandi snar þáttur í starfseminni, eins og Haraldur útskýrir; reksturinn snýst í raun alfarið um það að þjónustufulltrúi selur fyrirtækjum og þjónustar þau meðfram því. Það er því lítið um það að fólk sé að koma inn af götunni til Würth, eins og Haraldur orðar það.

Þverþjóðlegir samráðsfundir

Þannig hljómar Würth-rekstrarmódelið á heimsvísu, og nákvæmlega sami háttur hafður á hvort sem það er hér á landi eða í tilteknu Afríkuríki. „Það er gaman að segja frá því að ég er í grúppu af framkvæmdastjórum hjá Würth frá átta mismunandi löndum og við erum að hittast á um það bil þriggja mánaða fresti. Þá erum við að fara yfir mál hvers lands fyrir sig, berum saman bækur okkar og skoðum hvað gengur vel og hvað síður, ef eitthvað er. Í spjallinu er svo hægt að fá hugmyndir og innblástur af öðrum markaðssvæðum, leita í reynslubanka kollega í öðrum löndum og miðla þekkingu milli manna og draga lærdóm af.“

Vöruþróun er enn fremur snar þáttur í starfsemi Würth og sífellt er verið að þróa nýjar lausnir. Þúsundir nýrra vörunúmera eru kynntar á hverju ári og svo þarf að velja úr það sem hentar íslenskum markaði og aðstæðum.

Fagmennirnir koma aftur og aftur

„Skrúfa er til dæmis ekki það sama og skrúfa,“ bendir Haraldur á. „Sumar þurfa átak og fyrirhöfn til að vera skrúfaðar í tré en aðrar geturðu skrúfað á sinn stað á örfáum andartökum. Þetta sparar bæði tíma og afl. Það tekur í þegar þú þarft að skrúfa hundruð eða þúsundir af skrúfum í stóru verki. Sama er með kítti. Kíttið okkar er jafnan talið með betra kítti á markaðnum og það heldur einstaklega vel. Það lekur ekkert sem hefur verið kíttað með Würth-kítti. Það er kannski freistandi fyrir byggingaraðila að spara og kaupa ódýrt kítti fyrir gluggana í heilu fjölbýlishúsi. Sá sparnaður fer hins vegar fyrir lítið þegar þú þarft svo kannski að skipta út og laga alla gluggana. Þegar allt kemur til alls eru það gæðin sem gilda, og við berjumst ekki á lágvöruverðsgrundvelli. Við leggjum alla áherslu á gæðin,“ segir Haraldur. „Þegar upp er staðið eru gæðin því ódýrari en að þurfa að laga það sem aflaga fór. Þetta skilar sér og það er það sem er mest gefandi í þessu, að iðnaðarmaðurinn og fyrirtækin koma til okkar aftur og aftur því fagfólkið treystir vörunum okkar og kann að meta þjónustuna.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK