„Samkeppnishæfnin orðin að engu“

Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Odda.
Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Odda. mbl.is/Rósa Braga

Svona ákvarðanir eru ekki teknar með litlum fyrirvara. Þetta er niðurstaða margra mánaða yfirlegu og rýni á möguleikum í stöðunni,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Odda. 

Greint var frá því á mbl.is í dag að 86 störf leggist af hjá Odda samhliða umfangsmiklum breytingum hjá fyrirtækinu. Innlend framleiðsla Odda á plast- og bylgjuumbúðum verður lögð niður. 

„Það eru utanaðkomandi þættir sem valda þessu. Þeir eru sterkt gengi og hár launakostnaður sem hefur orðið sífellt meira íþyngjandi og hefur gert það að verkum að samkeppnishæfni okkar er orðin að engu,“ segir Kristján. 

Kristján tekur fram að Oddi sé ekki að fara að loka og að önnur starfsemi fyrirtækisins verði efld. 

„Við erum með sterk birgjatengsl erlendis og markmið okkar er að bjóða viðskiptavinum okkar jafngóða og jafnvel betri þjónustu í framhaldinu.“

Hann segir að mörgum möguleikum hafi verið velt upp í ferlinu en niðurstaða eigenda og stjórnenda hafi verið sú að þessar breytingar komi best út fyrir félagið til lengri tíma litið. 

„Þó svo að á þessum tímamótum séum við að horfa á eftir mörgum góðum félögum þá horfum við stjórnendur og eigendur félagsins fram á það að við séum að efla félagið á næstu misserum.“

Hætta framleiðslu í apríl

Framleiðslu á plast- og bylgjuumbúðum verður haldið áfram þangað til í apríl og býðst flestum sem var sagt upp í dag að vinna út uppsagnarfrestinn. 

„Ég ítreka það að við höfum lagt okkur fram við það að koma sem best fram við það fólk sem er að yfirgefa okkur núna. Við höfum unnið í nánu samstarfi við verkalýðsfélög og aðra til að geta komið að því að aðstoða fólkið.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK