Áhætta Kortaþjónustunnar var einsdæmi

mbl.is/Eggert

Áhætta af því tagi sem olli Kortaþjónustunni miklu fjárhagstjóni í vetur er ekki til staðar hjá öðrum færsluhirðingarfyrirtækjum samkvæmt greiningu Fjármálaeftirlitsins sem vinnur nú að því að tryggja að viðlíka áhætta byggist ekki aftur upp. 

Greint var frá því í byrjun nóvember að færslu­hirðing­ar­fyr­ir­tækið Kortaþjón­ust­an hefði orðið  fyr­ir al­var­legu höggi þegar breska lággjalda­flug­fé­lagið Mon­arch fór í greiðslu­stöðvun í mánuðinum á undan. 

Kortaþjón­ust­an tók áhættu sem fólst í því að um leið og greiðsla barst vegna ferða sem enn voru ófarn­ar, var hluta greiðslunn­ar fleytt áfram og á reikn­inga flug­fé­lags­ins. Þegar ferðir Mon­arch féllu niður bak­fær­ðust hins veg­ar kaup viðskipta­vina þess og færslu­hirðing­ar­fyr­ir­tæk­in sátu uppi með tjón sem nam hinni bak­færðu upp­hæð.

Við teljum að við höfum gengið úr skugga um að allt sé með eðlilegum hætti eins og sakir standa,“ segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, í samtali við mbl.is.

Hann segir að sambærileg áhætta sé ekki til staðar hjá öðrum færsluhirðingarfyrirtækjum og ekki lengur hjá viðkomandi fyrirtæki.

„Áhætta tengd einstaka viðskiptavinum er ekki svo umfangsmikil að hún ógni fyrirtækjunum.“

Hefja reglubundna vöktun

Þá nefnir Jón Þór að hjá Fjármálaeftirlitinu sé í skoðun hvernig koma eigi upp reglubundinni vöktun til þess að koma í veg fyrir að áhætta á umfangsmiklum endurkröfum myndist.

Í fundargerð frá fyrsta fundi fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2018 kemur fram að ráðið hafi rætt um yfirstandandi endurskoðun á eftirliti með tilteknum áhættum tengdum greiðsluþjónustuveitendum, þ.e. endurkröfu- og samþjöppunaráhættu. Í fjármálastöðugleikaráði sitja fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður ráðsins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK