Ísland og S-Kórea glímdu við álíka vanda

Lilja Alfreðsdóttir og Lee Ju-yeol, seðlabankastjóri Suður-Kóreu.
Lilja Alfreðsdóttir og Lee Ju-yeol, seðlabankastjóri Suður-Kóreu. Ljósmynd/Aðsend

Margt er líkt því sem gerðist í aðdraganda fjármálakreppanna á Íslandi og í Suður-Kóreu og má nefna í því samhengi lánveitingar í bankakerfinu til tengdra aðila. Þetta kom fram í fyrirlestri Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra í Seðlabanka Suður-Kóreu í gær. 

„Það er margt líkt með því sem gerist í aðdraganda fjámálakreppanna hjá báðum ríkjum, eins og mikið erlent fjármagnsinnflæði, kröftugur hagvöxtur, mikil einkaneysla ásamt því að lánveitingar í bankakerfinu voru til tengdra aðila í miklum mæli. Þrátt fyrir þetta ójafnvægi var afgangur á fjárlögum og skuldastaða ríkjanna góð,“ sagði Lilja þegar hún bar saman stöðu landanna. 

Á móti kom að gjaldeyrisforðarnir voru báðir smáir í sniðum í samanburði við þá áskorun sem við var að etja.

Suður-Kórea tókst á við miklar efnahagsþrengingar í kjölfar asísku fjármálakreppunnar sem hófst árið 1997 en eins og Ísland náði Suður-Kórea að rétta úr kútnum. 

„Við sjáum að bæði löndin hafa náð að yfirstíga erfiðleikana í kjölfar efnahagsþrenginganna. Hagvöxtur tók hressilega við sér, skuldastaða ríkjanna batnaði talsvert, atvinnuleysi minnkaði ört og talsverður afgangur hefur verið af utanríkisviðskiptum‘‘ bætti Lilja við.

Hún átti jafnframt fund með seðlabankastjóra Suður-Kóreu, Lee Ju-yeol og framkvæmdastjóra alþjóðasviðs bankans, Seung Heon Lee. Fram kom á fundunum að helstu áskoranir suður-kóreska hagkerfisins eru minnkandi samkeppnishæfni landsins og öldrun þjóðarinnar.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu eru að bregðast við þeim vanda meðal annars með því að styrkja umgjörð hátækniiðnaðarins og efla endurmenntun þar sem störf hafa glatast í kjölfar tæknibreytinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK