Mikilvægt að minna á lærdóma fortíðar

Nefndin leggur til að dregin verið varnarlína í ljósi sögunnar.
Nefndin leggur til að dregin verið varnarlína í ljósi sögunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensku bankarnir standa styrkum fótum nú um stundir og ekkert bendir til þess að það breytist á næstu misserum. Þetta kemur fram í skýrslu nefndar um skipulag bankastarfsemi á Íslandi, en hún skilaði nýverið af sér tillögum.

Í ljósi sögunnar telur nefndin samt skynsamlegt að dregin verði varnarlína um hvað fjárfestingarbankastarfsemi á grunni beinnar og óbeinnar stöðutöku geti vaxið mikið hjá stærstu bönkunum, þeim sem teljast kerfislega mikilvægir hér á landi.

Í skýrslunni kemur fram að mat Fjármálaeftirlitsins á eiginfjárþörf vegna beinnar og óbeinnar stöðutöku hafi numið 4,4 prósentum um mitt ár 2017. Eftirlitið telji þó að matið kunni að hækka við væntanlegar breytingar á viðmiðum þess.

„Nefndin leggur til að varnarlína verði dregin við það ef þetta hlutfall nær 10-15% í framtíðinni hjá einhverjum bankanna. Viðkomandi banki hafi þá tvo valkosti, að draga úr þessari starfsemi sinni eða stofna um hana sérstakt félag, sem þó má vera innan sömu samstæðu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þannig verði leitast við að tryggja að þótt banki velji að halda áfram að auka slíka starfsemi verði kerfislega mikilvæg starfsemi bankans varin gegn aukinni áhættu.“

Til vara leggur nefndin til að löggjafinn veiti Fjármálaeftirlitinu skýra heimild og skyldu til að grípa til aðgerða telji eftirlitið að fjárfestingabankastarfsemi tiltekins banka sé orðin það viðamikil að hún skapi áhættu fyrir viðskiptabankann. Nefndin kallar einnig eftir því að eftirlitsaðilar skilgreini þá kjarnastarfsemi banakanna sem ávallt verður að vera til staðar til að þjóna almenningi og fyrirtækjum í landinu.

Nefndin setur einnig fram ábendingar um nokkra þætti sem komu fram í samtölum við viðmælendur. Til að mynda er lögð áhersla á mikilvægi traustrar eiginfjárstöðu bankanna til framtíðar og gerð tillaga um viðbótartæki fyrir eftirlitsaðila til að koma böndum á öran útvöxt. Einnig er lögð áhersla á mikilvægi þess fyrir eigendur og stjórnendur bankanna að reglulega sé minnt á lærdóma fortíðar.

Mikilvægi aukins gagnsæis er einnig tíundað og gerð tillaga um aukið gagnsæi skuldsetningar viðskiptamanna vegna kaupa í skráðum félögum. Mælst er til þess að regluverkið skapi eðlilegt svigrúm fyrir nýja aðila á sviði fjártækni, án þess að missa sjónar á fjármálastöðugleikanum. Kallað er eftir reglum til að takmarka áhættu af hátíðniviðskiptum og að sérstaklega verði hugað að samkeppni og samkeppnishæfni við heildarendurskoðun löggjafar um fjármálamarkaðinn.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir