Sömu brögð og hjá íslensku bönkunum

Breski bankinn Barclays hefur verið ákærður af yfirvöldum í Bretlandi fyrir að hafa veitt lán til kaupa á eigin bréfum í miðju fjármálahruninu. Íslensku bankarnir gerðu það sama en aldrei var gefin út ákæra sem sneri sérstaklega að því að hlutafé bankanna hefði verið ógreitt að stórum hluta. 

Ákæran á hendur Barclays snýst um að bank­inn hafi lánað fjár­fest­um frá Kat­ar þrjá millj­arða Banda­ríkja­dala til að kaupa bréf í bank­an­um sjálf­um sem hlut af 7,3 millj­arða punda sam­komu­lagi sem gert var í miðju fjármálahruninu árið 2008. 

„Þetta snýst um það sama,“ segir Stefán Svavarsson endurskoðandi. „Bankarnir lánuðu aðilum til að kaupa bréf í sjálfum sér og eins lánaði Barclays katörskum mönnum í sama tilgangi.“

Stefán skrifaði ýtarlega grein á vef Viðskiptablaðsins ásamt Jóni Þ. Hilmarssyni í byrjun mánaðar þar sem þeir fjölluðu um meðferð eigin hlutabréfa í reikningsskilum bankanna. Hann segir að munurinn á tilvikunum tveimur sé sá að erlendis hafi verið tekið alvarlega á lánveitingum sem þessum en síður hér heima. 

„Erlendis voru reglur um að lánveitingar fyrir sölu eigin bréfa banka væru óheimilar eða þannig að hlutafé yrði að greiða með reiðufé.“ 

Hættan blasti við

Í greininni kom fram að ársreikningar bankanna hefðu verið áritaðir án fyrirvara, annaðhvort af PWC eða KPMG. 

Í október 2007 lá fyrir að verulega var farið að hallast á til hins verra. Öllum sem að gerð reikningsskila bankanna komu mátti vera ljóst að gjaldþrot var þá þegar orðið eða yfirvofandi. Ekki þurfti annað til en farið hefði verið að gildandi lögum og reikningsskilareglum varðandi eigin bréf þá hlaut sú hætta að blasa við,“ segir í greininni. 

Þar kom fram að eigin hlutabréf mætti ekki telja til eignar og því yrði að draga keypt eigin bréf frá eigin fé sem þá lækkar en í því hefði reikningsskilum bankanna verið verulega áfátt. Þegar bréfin voru seld til sérvalinna viðskiptavina og starfsmanna hefðu bankarnir gripið til þessa ráðs til að leyna lækkun eigin fjár sem hefði átti að koma fram í reikningsskilum. 

Vitnað er í skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis (RNA) þar sem fram kom að við fall bankanna hefðu lán vegna sölu á eigin bréfum numið 300 milljörðum samkvæmt skýrslu RNA.

Rétt fyrir hrunið fór meðal annars fram sala á eigin bréfum íslensks banka til Sheik Al Thani fyrir 26 milljarða króna Í því máli var látið að því liggja að salan hefði leitt af sér innstreymi erlends gjaldeyris sem nokkur skortur var orðinn á en því var ekki að heilsa enda var allt andvirðið tekið að láni hjá viðkomandi banka sjálfum.“

Samkvæmt þessum tölum hefði þurft að leiðrétta oftalið eigið fé bankanna um allt að 50% til lækkunar. 

„Fyrir liggur að allt að 50% af hlutafé bankanna var í raun ógreitt þegar verst lét og var þar með ekki fullgilt hlutafé til að úthluta mætti arði vegna þess sem taldist vera eigin bréf bankans.  Þeir sem höfðu greitt fyrir hlutabréf í bönkunum í reiðufé máttu þola það að vera hlunnfarnir um arð sem nam þessum eigin bréfum og aldrei var í raun greitt fyrir og gátu því ekki borið arð.“

Dómsmál á röngum grunni

Þá fullyrða Stefán og Jón að dómsmál í tengslum við þessi mál á Íslandi hafi verið rekin á röngum grunni og þar með hafi mikilvæg tækifæri glatast. 

„Orðin lánveitingar og lán hafa hér að framan verið notuð um sölu bankanna á eigin bréfum gegn skuldaviðurkenningum með veði í sömu bréfum.  Almennar útlánareglur geta ekki átt við um eiginfjármögnun enda að lögum um eðlisólík viðskipti að ræða.  Eftir sem áður fóru  fram dómsmál um eiginfjármögnun byggð á meintum brotum á lögum og reglum um almenn útlán og þannig farið blaðsíðuvillt í lögbókinni.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir