Sala á yfir 5% í Arion banka gengin í gegn

mbl.is/Eggert

Arion banki og Kaupþing hafa tilkynnt um sölu á hlutum í Arion banka gegnum dótturfélag Kaupþings, Kaupskil.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka en þar segir að kaupendur séu fjöldi sjóða í rekstri fjögurra innlendra sjóðastýringarfyrirtækja ásamt tveimur af erlendu hluthöfum bankans, Trinity Investments (Attestor Capital LLP) og Goldman Sachs.

Heildarstærð viðskiptanna er 5,34% af útgefnu hlutafé Arion banka. Innlendu sjóðirnir kaupa 2,54% og erlendu hluthafarnir 2,8%.

Með þessum kaupum eru skilyrði fyrir 25 milljarða arðgreiðslu bankans uppfyllt, en á hluthafafundi bankans í vikunni var ákveðið að 25 milljarðar yrðu greiddir í formi arðgreiðsla og allt að bankinn gæti keypt til baka allt að 10% hlut í bankanum fyrir allt að 18,8 milljarða ef tækist að selja að minnsta kosti 2% í bankanum fyir 15 apríl.

Haft er eftir Paul Copley, forstjóra Kaupþings, að salan sé liður í áframhaldandi viðleitni til að innleysa eignasafn félagsins. Með þessum viðskiptum komi innlendir sjóðir í eigu fjölmargra Íslendinga inn í hluthafahópinn. 

Þá er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, að jákvætt sé að hluthafahópur Arion banka breikki. Tveir af núverandi hluthöfum árétti trú sína á bankanum með því að bæta við sína hlutabréfaeign. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir