Starfshættir smálánafyrirtækja verði endurskoðaðir

mbl.is/Júlíus

Neytendasamtökin telja brýnt að gripið verði til aðgerða gegn smálánafyrirtækjum, en samtökin segja að fyrirtækin hafi ítrekað brotið lög á undanförnum árum.

Í tilkynningu, sem birt hefur verið á vef Neytendasamtakanna, segir, að smálánafyrirtækin hafi ítrekað komist upp með að brjóta lög um neytendalán eins og hafi m.a. verið staðfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en áður höfðu bæði Neytendastofa og áfrýjunarnefnd neytendamála komist að sömu niðurstöðu.

Samtökin benda á, að þau mál hafi verið tilkomin vegna svonefnds flýtigjalds. Neytendastofa hafi einnig lagt dagsektir á fyrirtækin vegna nýrri mála er varði sölu rafbóka samhliða lánveitingu. Þá segir, að Neytendasamtökin hafi ekki fengið svör við þeirri spurningu hvort þessar sektir hafi verið greiddar.

„Það lítur út fyrir að þau úrræði sem stjórnvöld hafa til að koma í veg fyrir ólöglega lánastarfsemi dugi skammt. Starfsemin heldur að minnsta kosti óhindrað áfram. Það virðist þannig hagstæðara fyrir smálánafyrirtæki að standa í málarekstri við eftirlitsstofnanir, dómstóla og jafnvel fá á sig sektir en að fara að lögunum og lækka lánakostnaðinn svo þau standist lög.

Neytendasamtökin telja að ekki verði lengur við unað og hafa sent erindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Gerð er krafa um að ráðuneytið endurskoði starfshætti smálánafyrirtækja og tryggi að þau starfi lögum samkvæmt,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir