Arðgreiðslan nemi 15,4 milljörðum

mbl.is/Kristinn

Landsbankinn hagnaðist um 19,8 milljarða á árinu 2017 samanborið við 16,6 milljarða króna á árinu 2016. Lagt verður til við aðalfund að greiddur verði 15,4 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2017.

Þetta kemur fram í ársuppgjöri bankans. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 8,2% á árinu 2017, samanborið við 6,6% árið 2016. Hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 1,6 milljarða króna milli ára og námu 36,3 milljörðum króna árið 2017.

Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 8% á milli ára og námu 8,4 milljörðum króna. Tekjuaukning er einkum vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu.

Rekstrarkostnaður var 23,9 milljarðar króna og hækkar um 1,4% frá árinu á undan. Laun og launatengd gjöld standa í stað á milli ára. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 3,4%, aðallega vegna hærri framlaga til Fjármálaeftirlitsins og umboðsmanns skuldara og vegna aukins kostnaðar við upplýsingatækni.

Heildareignir Landsbankans jukust um 81,7 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2017 alls 1.193 milljörðum króna. Útlán jukust um 8,5% milli ára, eða um 72 milljarða króna. Aukningin skiptist jafnt á milli lána til fyrirtækja og íbúðalána til einstaklinga. Vanskilahlutfall útlána heldur áfram að lækka en það var 0,9% í lok árs 2017, samanborið við 1,5% í lok árs 2016.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2017 var 246,1 milljarður króna samanborið við 251,2 milljarða króna í árslok 2016. Á árinu 2017 greiddi Landsbankinn 24,8 milljarða króna í arð til hluthafa. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2017 var 26,7%, samanborið við 30,2% í árslok 2016. Fjármálaeftirlitið gerir 21,4% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK