Átta nýir stjórnendur hjá Icelandair

Klara Íris Vigfúsdóttir, Þ. Haukur Reynisson, Ásgeir Bjarni Lársson, Sigurjón …
Klara Íris Vigfúsdóttir, Þ. Haukur Reynisson, Ásgeir Bjarni Lársson, Sigurjón Sigurjónsson, Ástþór Ingson, Linda Gunnarsdóttir, Guðmundur Ólafsson og Einar Már Guðmundsson. Samsett mynd

Gerðar hafa verið umtalsverðar skipulagsbreytingar á rekstrarsviði Icelandair og nýir forstöðumenn ráðnir til nýrra starfa. Rekstrarsvið er nýtt svið hjá Icelandair og verður til við samruna flugrekstrartengdrar starfsemi Icelandair annars vegar og IGS hins vegar sem hingað til hefur verið starfrækt sem sjálfstætt fyrirtæki. Sviðið varð til um síðustu áramót og er Jens Þórðarson framkvæmdastjóri þess.

Með skipulagsbreytingum er stjórnkerfi sviðsins einfaldað til muna, boðleiðir styttar og stjórnendum fækkað, að því er kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Hér að neðan eru forstöðumennirnir átta.

Ásgeir Bjarni Lárusson

Forstöðumaður tæknisviðs

Ásgeir Bjarni Lárusson hóf störf hjá Icelandair 2012 sem verkefnastjóri hjá tækniþjónustu félagsins (ITS). Árið 2015 tók Ásgeir við stöðu forstöðumanns viðhaldstýringar og sinnti því til september 2017. Frá september 2017 hefur Ásgeir leitt sameiningu á þremur deildum, Viðhaldstýring, Verkfræðideild og Hönnunardeild og mun í nýju skipulagi leiða þennan sameinaða hóp sem forstöðumaður tæknisviðs. Áður en Ásgeir hóf störf hjá Icelandair starfaði hann sem verkfræðingur hjá Bang&Olufsen. Ásgeir er með MSc gráðu í Engineering Business Management frá Warwick University í Bretlandi og BSc gráðu í Global Management og Manufacturing Engineering frá Háskólanum í Árósum.  Ásgeir er í sambúð með Gunnhildi Emilsdóttur og eiga þau saman 2 börn.

Ástþór Ingason

Forstöðumaður flugþjónustu erlendis

Ástþór hóf störf hjá félaginu árið 1978 sem sumarstarfsmaður aðeins 14 ára. Hann starfaði í mörgum deildum á Keflavíkurflugvelli  frá 1985 til  1996, þegar hann tók við sem deildarstjóri flugstjónustu. Tók við starfi stöðvarstjóra í Kaupmannahöfn 1999, varð svæðisstöðvarstjóri fyrir Norðurlöndin til ársins 2003 er hann varð yfirmaður stöðvareksturs Icelandair í Evrópu. Árið 2007 tók hann við sem yfirmaður alls stöðvarekstur félagsins. Giftur Elfu Dröfn Jónsdóttur með fimm börn.

Einar Már Guðmundsson

Forstöðumaður viðhaldssviðs

Einar Már Guðmundsson hóf störf hjá Icelandair árið 2015 sem forstöðumaður innkaupadeildar hjá tækniþjónustu félagsins (ITS). Einar starfaði áður sem innkaupastjóri hjá RioTinto Alcan (ISAL) í 3 ár og þar á undan sem rekstrarstjóri hjá Skeljungi. Einar mun í nýju skipulagi verða forstöðumaður viðhaldssviðs og innkaupadeildar. Einar er með MBA gráðu frá Copenhagen Business School. Einar er giftur Katrínu Melstað og eiga þau saman tvær dætur.

Guðmundur Ólafsson

Forstöðumaður flugþjónustu Keflavíkurflugvelli

Guðmundur hóf störf hjá Icelandair Ground Services árið 2008 sem starfsmaður farþegaþjónustu. Í september 2015 tók hann við deildarstjórastöðu innan fyrirtækisins en í ágúst 2017 tók hann við starfi forstöðumanns flugafgreiðslu- og fraktsviðs og hefur sinnt því síðan. Áður starfaði hann á markaðssviði Íslandshótela en keðjan rekur m.a. Grand Hótel, Fosshótel hótelkeðjuna ásamt fleiri hótelum víðs vegar um landið. Guðmundur er með B.Sc. viðskipta- og markaðsfræði með áherslu á ferðamálafræði frá Háskóla Íslands. Guðmundur er búsettur í Hafnarfirði og er tveggja barna faðir.

Klara Íris Vigfúsdóttir
Forstöðumaður flugáhafna

Klara hóf störf hjá Icelandair árið 2017 sem forstöðumaður flugáhafna (Cabin Operations). Klara starfaði áður sem forstöðumaður hjá Ferðaskrifstofu Íslands árin 2015-2017 og þar áður sem framkvæmdastjóri ÍMARK á árunum 2013-2015. Hún starfaði við flugrekstur sem aðstoðarmaður forstjóra Iceland Express, og síðar sem framkvæmdastjóri Express ferða, á árunum 2011-2013. Klara sem er með B.sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er gift Guðmundi Inga Haukssyni og saman eiga þau þrjú börn.

Linda Gunnarsdóttir

Yfirflugstjóri

Linda starfaði hjá Íslandsflugi sem flugmaður frá 1993 og til 1995 þegar hún höf störf hjá Flugleiðum á Fokker-50.  Frá 1998 flug hún Boeing-737 þangað til hún fluttist yfir á Boeing-757/767 sem hún flýgur enn í dag. Hún tók við starfi flugstjóra 2006 og sinnti að auki bóklegri ný- og síþjálfun flugmanna.  2006 útskrifðist Linda með B.sc í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á stjórnun og stefnumótun. Frá 2011 hefur hún einnig starfað sem þjálfunarflugstjóri og prófdómari. Hún tók við starfi flotasjóra á B-757 og svo stöðu aðstoðaryfirflugstjóra 2015. Linda er í sambúð með Gunnlaugi Rafni Björnssyni og eiga þau þrjú börn.

Sigurjón Sigurjónsson

Forstöðumaður öryggis- og gæðasviðs

Sigurjón hóf störf hjá Icelandair í júní 2009 og tók þá við stöðu gæðastjóra félagsins. Hann starfaði áður hjá Flugmálastjórn og var deildarstjóri lofthæfideildar. Í starfi sínu hjá flugmálastjórn tók hann þátt í innleiðingu JAR reglna frá upphafi og var fulltrúi Íslands í nefndum JAA og síðar EASA sem var stofnað 2002. Sigurjón fékk vottun sem IOSA úttektamaður 2016 og hefur tekið þátt í IOSA úttektum á erlendum flugfélögum á vegum ACS Aviation Solutions. Hann lauk námi í flugvirkjun frá Spartan School of Aeronautics 1987 og starfaði fyrst sem flugvirki hjá Flugleiðum. Hann á tvær dætur og tvö barnabörn.

Þ. Haukur Reynisson

Flugrekstrarstjóri

Haukur hóf störf hjá Icelandair í innanlandsflugi 1991 á Fokker-27 síðan Fokker-50, Boeing-737 og Boeing-757. Hann varð flugstjóri 1998 á Fokker-50 síðan á Boeing-757/Boeing-767. Hann hefur einnig sinnt starfi þjálfunarflugstjóra og prófdómara frá árinu 2005. Haukur hefur verið yfirflugstjóri Icelandair frá 2015. Hann stundaði flugnám hjá Vesturflugi, American Flyers og Flugskóla Íslands.  Hann er giftur Kristínu Jónasdóttir og þau eiga tvær dætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK