Lyf og heilsa kaupir Börk

Lyfjaverslanakeðjan Lyf og heilsa hefur keypt allt hlutaféð í gluggaframleiðandanum Berki og hefur Samkeppniseftirlitið lagt blessun sína yfir samrunann.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um málið kemur fram að Lyf og heilsa fari með yfirráð yfir Glerverksmiðjunni Samverki og sé jafnframt eigandi 75% hlutafjár í félaginu Hljóðfærahúsinu sem rekur hljóðfæraverslanir. Þá eigi Lyf og heilsa 6,16% eignarhlut í félaginu Orkuhúsinu sem er eignarhaldsfélag um rekstur fasteignarinnar að Suðurlandsbraut 34, Reykjavík.

Börkur er fyrirtæki sem framleiðir glugga og hurðir. Félagið er í eigu fjögurra einstaklinga sem hver um sig á 25% hlut í félaginu. Helstu viðskiptavinir Barkar eru verktakafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, en u.þ.b. 80% af framleiðslunni fer á markað þangað og eru mörg þeirra í föstum viðskiptum.

Rökin fyrir samrunanum eru með þeim hætti að breytingar á verklagi í húsbyggingum síðustu ár hafi orðið til þess að byggingaraðilar hafi í vaxandi mæli kosið að setja glerjaða glugga í nýbyggingar eftir að uppsteypu er lokið. Þetta hafi haft þau áhrif að byggingarfélög vilji kaupa glugga og gler í einum samningi. Þessari stórauknu spurn eftir glerjuðum gluggum, samfara stórauknum byggingarframkvæmdum, hafi að miklu leyti verið mætt með innflutningi á tilbúinni vöru.

Framangreindar breytingar á markaðsaðstæðum hafi leitt til minni markaðshlutdeildar Glerverksmiðjunnar Samverks á nýbyggingarmarkaði og með kaupunum megi þannig ná fram samlegðaráhrifum.

Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til að aðhafast frekar í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK