Kaupir 2.500 fermetra bankahús

VÍB, Kaupþing, FBA, Iðnlánasjóður, SPRON og MP banki hafa verið …
VÍB, Kaupþing, FBA, Iðnlánasjóður, SPRON og MP banki hafa verið í húsinu. mbl.is/Eggert

Valdimar Grímsson, eigandi hinna gamalgrónu fyrirtækja Vogue fyrir heimilið og Sólargluggatjalda, hefur fest kaup á öllu húsnæðinu Ármúla 13a. Húsið hefur í gegnum tíðina hýst fjölda fjármálastofnana, þeirra á meðal VÍB, Kaupþing, Iðnlánasjóð, Fjárfestingabanka atvinnulífsins, SPRON og MP banka.

Valdimar hyggur á rekstur verslunar Sólargluggatjalda á jarðhæðinni, en á neðri hæð sem snýr út í port verður verkstæði. Sautján starfa hjá Sólargluggatjöldum, í verslun, á verkstæði og við uppsetningu.

Valdimar segir í samtali við ViðskiptaMoggann að kaupverð sé trúnaðarmál, en fasteignamat hússins er nærri 450 milljónir króna.

„Þetta kom til af því að eigendur núverandi húsnæðis vildu hækka leiguna þar sem fyrirtækið er núna í Skeifunni 11. Þá fannst mér kominn góður tími til að fara að leita mér að nýju húsnæði, og eftir að hafa kannað markaðinn fram og til baka var þetta niðurstaðan,“ segir Valdimar.

Þegar verslun og verkstæði Sólargluggatjalda verða komin í húsið, verða enn um 1.500 fermetrar lausir á efstu þremur hæðunum. Valdimar sér þar ýmis tækifæri, en hann segir að margir hafi sýnt áhuga á að leigja hæðirnar fyrir ýmiss konar starfsemi. „Maður er að stökkva út í djúpu laugina með þessum kaupum, en það gerist ekkert nema maður þori.“

Sú starfsemi sem mögulega kemur í húsnæðið eru skrifstofur, hostel eða hótel. „Ég tel staðsetningu byggingarinnar sterka. Þarna er að fjölga þjónustuverslunum og gott að fá bílastæði.“

Valdimar segir að þó að húsnæðið sé þrisvar sinnum stærra en hann ætlaði sér upphaflega að kaupa, þá segi innsæið honum að þetta muni ganga vel upp.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK