Níu ár að safna fyrir innborgun í nýja eign

mbl.is/​Hari

Fermetraverð nýrra eigna er almennt hærra en eldri eigna. Þær eru jafnframt stærri og auk þess er verið að byggja á hlutfallslega dýrum svæðum. Það leiðir til þess að ungt fólk verður að meðaltali 9 ár að safna fyrir innborgun í nýjar eignir í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka þar sem finna má ýtarlegri umfjöllun. Þar segir að fermetraverð nýrra eigna sé nokkuð hærra en eldri eigna en þó hafi bilið minnkað að undanförnu. Nýjar eignir séu auk þess að stærri en eldri eignir að jafnaði. 

Er tekið dæmi um að meðalstærð nýrra seldra eigna í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hafi verið 122 fermetrar á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, samanborið við 103 fermetra í tilfellum eldri eigna. 

Meðalkaupverð nýrrar eignar í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári var í kringum 54 milljónir króna á meðan eldri eignir fóru á 43 milljónir. Þá er bent á að mesta uppbyggingin sé skipulögð í póstnúmeri 101 en einnig sé töluverð uppbygging í póstnúmeri 103 sem og í Kópavogi og Garðabæ. Uppbyggingin sé því á dýrari svæðum. 

Greiningardeildin reiknaði út hvað ungt fólk á aldrinum 25-29 væri að meðaltali lengi að safna fyrir þeirri innborgun sem þarf til að kaupa nýjar eignir á þessum svæðum. Hún nemur að meðaltali 12 milljónum og árlegar ráðstöfunartekjur þessa hóps eru að um 300 þúsund á mánuði að meðaltali. 

„Samkvæmt dæmigerðum neysluviðmiðum eru heildarútgjöld einstaklings án barna og húsnæðiskostnaðar um 220 þúsund, sem þýðir að einstaklingurinn gæti lagt til hliðar tæpan 80 þúsund á mánuði, ef hann þarf ekki að borga fyrir húsnæðið sem hann dvelur í. Út frá þessu tæki þennan einstakling um 12 ár að safna fyrir útborgun, 9 ár ef um fyrstu fasteign væri að ræða.“

Ef einstaklingurinn væri á leigumarkaði tæki hann hins vegar enn lengri tíma að safna. Þó ber að hafa í huga að aðeins er um meðaltalsútreikninga að ræða. Einhverjar eignir eru dýrari og aðrar ódýrari, sumir hafa hærri ráðstöfunartekjur og aðrir lægri.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK