Arkþing og C.F. Møller valin til að hanna nýbyggingu Landsbankans

Bankastjóri Landsbankans segir að verið sé að flytja starfsemi bankans …
Bankastjóri Landsbankans segir að verið sé að flytja starfsemi bankans í mun minna, hagkvæmara og hentugra húsnæði. Ljósmynd/Landsbankinn

Landsbankinn hefur ákveðið að ganga til samninga við Arkþing ehf. og C.F. Møller um hönnun og þróun á nýbyggingu bankans við Austurhöfn í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

Þar segir, að sjö arkitektateymi hafi í október verið valin til að skila inn frumtillögum að hönnun hússins og í janúar bárust bankanum tillögur frá sex teymum, að viðhafðri nafnleynd.

Þriggja manna ráðgjafaráð var bankastjóra og bankaráði til fulltingis við ákvörðunina og mælti ráðgjafaráðið með þeirri tillögu sem varð fyrir valinu. Þegar samningar við tillöguhöfunda liggja fyrir mun vinna við fullnaðarhönnun hússins hefjast. Frumtillagan getur tekið breytingum á hönnunarstigi, þótt heildaryfirbragð hússins verði óbreytt. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs. Bygging hússins verður boðin út, að því er segir í tilkynningunni.

Verðmæt eign fyrir Landsbankann

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, segir í tilkynningunni, að húsið sem Arkþing og C.F. Møller hafi teiknað sé fallegt og kallist vel á við umhverfi sitt.

„Við teljum að það muni sóma sér vel í miðborginni og verði verðmæt eign fyrir Landsbankann. Tillagan hæfir starfsemi bankans vel og uppfyllir best þær forsendur sem við lögðum upp með.“ 

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu, að verið sé að flytja starfsemi bankans í mun minna, hagkvæmara og hentugra húsnæði.

„Einn helsti kostur tillögunnar er að vinnurýmin eru ákjósanleg og með góðum innbyrðis tengslum sem styðja við nútímavinnuumhverfi þar sem áhersla verður lögð á verkefnamiðaða vinnuaðstöðu. Húsið er vel hannað skrifstofu- og verslunarhúsnæði og þeir hlutar hússins sem bankinn hyggst leigja eða selja undir aðra starfsemi eru vel heppnaðir. Það skiptir miklu máli að skipulag hússins er sveigjanlegt og því verður auðvelt að móta húsið að breytingum á starfsemi bankans. Þetta er fjárfesting til framtíðar.“

Nánar á vef Landsbankans

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK