Gagnaverið verður aðalvélarsalur RB

Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna, á blaðamannafundinum í Korputorgi ...
Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna, á blaðamannafundinum í Korputorgi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdir við fyrsta gagnaverið í Reykjavíkurborg hefjast þegar á þessu ári og gera áætlanir ráð fyrir að fyrsti áfangi þess verði tekinn í notkun snemma árs 2019. Gagnaverið verður aðalvélarsalur Reiknistofu bankanna (RB), sem þróar og rekur öll megingreiðslukerfi landsins.

Auk RB eiga Opin kerfi, Vodafone og Korputorg aðild að verkefninu, en samningar um byggingu gagnaversins voru undirritaðir á blaðamannafundi í Korputorgi eftir hádegi í dag.

Í fréttatilkynningu segir að reiknað sé með að gagnaverið verði eitt það tæknilegasta og öflugasta á landinu, en það mun uppfylla svokallaðan Tier III-staðal, sem þýðir að í allri þjónustukeðju gagnaversins verður nægur varabúnaður til staðar til að tryggja 100% þjónustuöryggi.

„Það ánægjulegt að þátttaka RB í verkefninu tryggi framgang þess og að til verði öruggt hágæða gagnaver á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna.

Hann segir að gagnaverið verði sérsniðið að þörfum RB og muni uppfylla kröfur viðskiptavina þeirra, sem leggi mikla áherslu á að tryggja öryggi þjónustu til neytenda og fyrirtækja.

„Verkefnið skapar nýjan valkost fyrir fyrirtæki og stofnanir og ýtir þannig undir samkeppni á gagnaversmarkaðinum á Íslandi. Um er að ræða öruggan og hagkvæman kost sem á eftir að höfða jafnt til innlendra sem erlendra fyrirtækja,“ segir Friðrik Þór.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir