FME skoðar lögmæti bitcoin-hraðbanka

Bitcoin-hraðbankar í Hong Kong.
Bitcoin-hraðbankar í Hong Kong. AFP

Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að kanna hver staða bitcoin-hraðbanka sé með tilliti til laga og reglna vegna tilkomu fyrsta hraðbankans af þessu tagi á Íslandi. Seðlabankinn telur nauðsynlegt að löggjafinn beini sjónum að notkun sýndargjaldmiðla. 

Fyrsti bitcoin-hraðbankinn á Íslandi var kynntur til sögunnar á hótelinu Hlemmur Square í síðustu viku. Hraðbank­inn virkar þannig að með því að setja reiðufé í hraðbank­ann er hægt að kaupa bitco­in sem er síðan fært inn á bitco­in-reikn­ing viðkom­andi. 

Í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn mbl.is segir að Fjármálaeftirlitið sé að skoða hver staða bitcoin-hraðbanka sé með tilliti til laga og reglna. Vildi stofnunin því ekki tjá sig með afgerandi hætti um málið að svo stöddu. Þá var ekki gefið upp hvenær niðurstöðu væri að vænta. 

Í svari frá Seðlabankanum segir að lög og reglur sem gilda um fjármálainnviði nái ekki yfir sýndargjaldmiðla og að Seðlabankinn telji nauðsynlegt að löggjafinn beini sjónum að notkun þeirra og viðskiptum með sýndargjaldmiðla.

Bendir Seðlabankinn á að breytingar á reglum um gjaldeyrismál síðasta sumar feli í sér að heimilt sé að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi á grundvelli viðskipta með sýndargjaldmiðla. Seðlabankinn hefur hins vegar varað við notkun sýndargjaldmiðla, meðal annars vegna þess að notendur njóta ekki verndar laga um greiðsluþjónustu né laga um útgáfu og meðferð rafeyris.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK