CCP blæs til stórsóknar í Kína

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Ljósmynd/Arnar Valdimarsson

Uppgjör íslenska tölvuleikjafyrirtækisins fyrir 2017 sýnir að það hafi komið vel undan vetri eftir ár mikillar endurskipulagningar. Eftir að hafa innleitt viðskiptalíkanið „Free to Play“ er CCP betur í stakk búið til þess að sækja inn á Kínamarkað í lok árs.

Hagnaður CCP á síðasta ári nam tæpum 3,4 milljónum Bandaríkjadala samanborið við 21,4 milljónir dala árið á undan sem var metár í sögu fyrirtækisins. Mismunurinn skýrist af því að fyrirtækið réðst í mikla endurskipulagningu á síðasta ári sem nú er yfirstaðin. 

„Við veðjuðum á sýndarveruleikatæknina sem gekk vel í framkvæmd að mörgu leyti en markaðurinn er einfaldlega ekki á þeim stað að það gangi upp að halda áfram með hana,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, í samtali við mbl.is. 

„Við gengum í gegnum erfiðar breytingar en náðum árinu fyrir vind vegna þess að við tókum ákvörðun snemma í ferlinu. Það að fyrirtækið hafi skilað hagnaði er ánægjulegt í ljósi alls þess sem hefur gengið á.“

Hilmar telur að sýndarveruleikinn taki við sér á næstu árum en þangað til mun CCP einblína á kjarnastarfsemina þ.e. PC-tölvuleiki og auk þess verður tilraunastarfsemi í þróun snjallsímaleikja.

Áskriftarlíkanið aftrað EVE í Kína

Megnið af tekjum fyrirtækisins kemur frá tölvuleiknum EVE Online sem verður 15 ára í maí. Fyrir tæpu einu og hálfu ári breytti CCP viðskiptalíkani EVE Online í svokallað „Free to Play“-líkan sem snýst um gera áskrift að tölvuleiknum valkvæða en afla í staðinn tekna með sölu á varningi í tölvuleiknum. Hilmar segir að þessi breyting feli í sér mikil tækifæri. 

„Það tekur yfirleitt nokkur ár að breyta áskriftarlíkani í gott „Free to Play“-líkan þannig að það er mikil vinna fram undan. Síðan ætlum við að blása til stórsóknar á Kínamarkaði í lok næsta árs. Áskriftarlíkanið hefur ekki tíðkast mikið í Kína og hefur þess vegna haldið aftur af leiknum á þeim markaði.“

Hilmar nefnir að skotleikurinn Project Nova sé í þróun og að fyrsti snjallsímaleikur CCP verði gefinn út á þessu ári. Þá séu önnur verkefni í þróun sem of snemmt sé að tilkynna um. Aðspurður segir Hilmar að einu fyrirhuguðu breytingarnar á Íslandi séu að flytja starfsemina í nýtt húsnæði við hliðina á Íslenskri erfðagreiningu í Vatnsmýrinni eins og áður hefur verið greint frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK