Hugvit drifkraftur framfara

Náttúruauðlindir eru takmarkaðar og staðbundnar en hugvitið er óþrjótandi.
Náttúruauðlindir eru takmarkaðar og staðbundnar en hugvitið er óþrjótandi. mbl.is/Rax

Hugvit verður drifkraftur framfara á Íslandi á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting
náttúruauðlinda var grundvöllur vaxtar á 20. öldinni. Náttúruauðlindir eru takmarkaðar
og staðbundnar en hugvitið er óþrjótandi og án landamæra, segir í nýrri skýrslu sem Samtök iðnaðarins gefa út í dag í tengslum við Iðnþing 2018.

„Atvinnustefnu þarf að móta og hún þarf að samþætta stefnumótun í helstu málaflokkum eigi þessi sýn að ganga eftir. Fjölbreytt atvinnulíf er eftirsóknarvert því það styrkir grundvöll hagkerfisins.

Hér á landi þarf að fjölga stoðunum. Íslenskt efnahagslíf er mjög sveiflukennt og mun sveiflukenndara en gengur og gerist í samanburðarlöndum. Því veldur m.a. smæð og einhæfni í gjaldeyrissköpun ásamt hagstjórn sem einkennist oft og tíðum af óöguðum vinnubrögðum m.a. við gerð kjarasamninga,“ segir í skýrslunni.

Meðal annars er fjallað um alþjóðlega samkeppnishæfni í skýrslunni sem skýrsluhöfundar segja eina af lykilforsendum bættra lífskjara.

„Með markvissri stefnumótun vinna stjórnvöld í flestum ríkjum heims að því að bæta stöðu síns lands í samkeppni við önnur ríki. Skýr sýn, fumlaus framkvæmd og markviss eftirfylgni leiðir til raunverulegra umbóta og leggur grunn að auknum lífsgæðum. Hér á landi eru ýmis dæmi um þetta á undanförnum árum. Má þar nefna losun fjármagnshafta og efnahagslega endurreisn þar sem tekið var heildstætt á málum. Árangur þessa hefur vakið eftirtekt víða um heim. Algengara er þó að móta stefnu í hverjum málaflokki fyrir sig án þess að horfa til þess hvernig stefna í einum málaflokki getur stutt við markmið í öðrum málaflokki,“ segir í skýrslunni.

45 króna af hverjum 100 er eyðsla hins opinbera

Hið opinbera eyðir 45 krónum af hverjum 100 í hagkerfinu. Með heildstæðri stefnumótun, þar sem málin eru skoðuð frá mörgum hliðum, getur hið opinbera nýtt fjármuni til markvissrar uppbyggingar.

„Á þessum grunni þurfa stjórnvöld að móta atvinnustefnu sem tengir meðal annars saman stefnumótun í orkumálum, menntamálum og nýsköpun til að styðja við öfluga og arðbæra atvinnuuppbyggingu og þar með velferð á Íslandi á næstu áratugum. Skýr stefnumörkun er lykilatriði þegar horft er til þess að efla samkeppnishæfni landsins.

Í nýlegri rannsókn á vegum Alþjóðabankans var bent á að þeir þættir sem helst ákvarða breytileika í framleiðni á milli landa eru efnislegir innviðir, menntun, nýsköpun, skilvirkni markaða ásamt stofnanainnviðum.

Undirstrikar þetta mikilvægi þeirra málefna sem Samtök iðnaðarins leggja áherslu á; innviði, menntun, nýsköpun og starfsskilyrði. Þannig eflist framleiðni og samkeppnishæfni sem styðja við bætt lífskjör í landinu. Atvinnulífið er mikilvægt tannhjól í viðamiklu gangverki samfélagsins. Þar verða til störf og verðmæti sem leggja grunn að velsæld þjóðarinnar. Aukin samkeppnishæfni gagnast því ekki einungis atvinnulífinu heldur samfélaginu í heild sinni. Iðnaður er mjög umfangsmikill í íslensku efnahagslífi og stendur undir um 30% landsframleiðslu, greinin er fjölþætt og snertir nær alla þætti hagkerfisins. Greinin hefur átt stóran þátt í núverandi efnahagsuppsveiflu. Mikil tækifæri eru til vaxtar, ekki síst með frekari virkjun hugvits og nýsköpunar,“ segir í skýrslu Samtaka iðnaðarins.

Framleiðni einn af grunnstoðunum

Framleiðni er ein af grunnstoðum sterkrar samkeppnisstöðu. Þar hefur íslenska hagkerfið verið eftirbátur þeirra ríkja sem við viljum helst bera okkur saman við. Verðmætasköpun á vinnustund er lág í alþjóðlegum samanburði og framleiðni hefur aukist hægt hér á landi undanfarin ár. Á sama tíma hafa laun hækkað hratt og langt umfram það sem sést hefur í nágrannalöndunum og gengi krónunnar hefur einnig hækkað umtalsvert. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur því versnað sem mun hafa ófyrirséðar afleiðingar til lengri tíma.

„Þrátt fyrir smæðina er vörumerkið Ísland nokkuð þekkt víða erlendis. Íslenskt markaðsfólk hefur staðið sig vel og náttúra landsins hefur stutt við markaðsstarfið með því að minna reglulega á sig. Íslenskt íþróttafólk hefur fangað athygli heimsins og listamenn hafa náð ótrúlegum árangri.

Allt eru þetta sendiherrar landsins sem hafa áhrif á orðspor og efnahag þjóðarinnar. Jákvætt orðspor getur aukið áhuga ferðafólks á að heimsækja landið, ýtt undir eftirspurn eftir vörum, þekkingu og þjónustu, hvatt til áhuga hæfileikafólks á búsetu og starfa og eflt áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta.

Sterkt orðspor skapar verðmæt störf, ekki síst ef mikil fagþekking er til staðar til að anna eftirspurninni. Við þær aðstæður verður víxlverkun í efnahagskerfinu, sem eykur verðmætasköpun og hagsæld enn frekar. Með öðrum orðum þá getur sterkt orðspor landsins aukið samkeppnishæfni Íslands og öfugt.“

Í hönnun geta falist einstök tækifæri til þess að skapa aukið virði framleiðslu sem getur stutt við orðspor landsins og aukið menningaráhrif, segja skýrsluhöfundar.

„ Hið opinbera á að ganga á undan með góðu fordæmi og prýða opinberar byggingar með íslenskum húsgögnum og innréttingum, ekki síst þær byggingar sem ferðamenn og aðrir gestir leggja leið sína um.

Ef mörkuð væri opinber stefna í innkaupum þar sem áherslan væri á íslenska hönnun og framleiðslu myndi það ýta enn frekar undir vöxt á þessum sviðum og byggja upp blómlegan iðnað, jafnt í hönnun sem og í framleiðslu.“

Nýja hugsun þarf inn í menntakerfið

Sýnin um hugvitsdrifið hagkerfi byggir meðal annars á traustu menntakerfi. Aukið fjármagn í menntakerfið er ekki nauðsynleg forsenda fyrir breytingar. Miklu frekar þarf nýja hugsun og nýjar áherslur til að leysa vandann, að sögn skýrsluhöfunda.

Samtök iðnaðarins vilja þáttinn Nýjasta tækni og vísindi aftur í …
Samtök iðnaðarins vilja þáttinn Nýjasta tækni og vísindi aftur í sjónvarp. mbl.is/Golli

„Það velkist enginn í vafa um að menntakerfið er mikilvægt fyrir samfélagið en það er langt frá því að vera eyland heldur þarf að búa einstaklinga undir störf í alþjóðlegu efnahagslífi. Menntakerfið í núverandi mynd byggir á aldagömlum hugmyndum.

Með þeim framförum sem orðið hafa og vænta má að verði í samfélagi og atvinnulífi okkar þarf nýja hugsun og djarfa framtíðarsýn til þess að starfsmenn framtíðarinnar séu betur undirbúnir fyrir áskoranir og tækifæri þeirra tíma.

Leggja þarf meiri áherslu á þá grundvallarfærni sem er starfsmönnum framtíðar nauðsynleg – aðlögunarhæfni, stafræna færni, sköpun og lausnamiðun svo eitthvað sé nefnt. Það hefur reynst erfitt að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og blasir við að fjölga þarf þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins. Þannig er færnimisræmi til staðar á vinnumarkaði en þá er átt við það misræmi sem er á milli þeirrar færni sem atvinnulíf sækist eftir og svo færni þeirra einstaklinga sem eru á vinnumarkaði.

Til dæmis má nefna að einungis 12% nemenda úr grunnskóla fara beint í starfsnám þrátt fyrir að mikil eftirspurn sé eftir starfsfólki í þessum greinum og atvinnuleysi sé lítið sem ekkert. Þetta hlutfall er mun hærra annars staðar.

Samtök iðnaðarins hafa beitt sér fyrir átaki til að fjölga nemendum í iðn- og verknámi. Einnig er áhersla á tækninám í víðtækri merkingu þar sem forritun og viðfangsefni stafræns hagkerfis eru höfð að leiðarljósi. Unnið er að því að ryðja hindrunum úr vegi til að auðvelda nemendum að ljúka námi. Að sama skapi er unnið að því að auka áhuga á þessum greinum og bæta ímynd starfsnáms. Í því skyni hafa Samtök iðnaðarins m.a. talað fyrir því að þátturinn „Nýjasta tækni og vísindi“ eða sambærilegur þáttur verði aftur á dagskrá í íslensku sjónvarpi,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK