Ljósi varpað á eignarhald Alvogen

Alvogen við Sæmundargötu 15-17.
Alvogen við Sæmundargötu 15-17. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eignarhaldið á lyfjarisanum Alvogen hefur alla tíð verið sveipað mikilli dulúð. Gögn sem Morgunblaðið birtir nú í fyrsta sinn varpa hins vegar ljósi á hvernig þriðjungshlutur í fyrirtækinu er undir stjórn sjálfseignarstofnunar (trust) sem Róbert Wessman kom á fót á aflandseyjunni Jersey árið 2015.

Með birtingu upplýsinganna, sem byggjast á gögnum frá Íslandi, Jersey, Lúxemborg, Bandaríkjunum og Svíþjóð er áralöngum vangaveltum um raunverulegt eignarhald á hinu ört vaxandi fyrirtæki, sem teygir starfsemi sína víða um heim, eytt.

Alvogen sendi mbl.is og Morgunblaðinu yfirlýsingu í morgun vegna greinarinnar.

Árni Harðar­son, aðstoðarfor­stjóri Al­vo­gen, seg­ir að hér eft­ir sem hingað til sé það auðsótt mál að veita upp­lýs­ing­ar um eign­ar­hald fyr­ir­tæk­is­ins. Í dag séu eig­in­leg­ir hlut­haf­ar fyr­ir­tæk­is­ins fjór­ir; Azt­iq Pharma Partners SCA (fjár­fest­ing­ar­sjóður í Lux­em­borg) alþjóðlegi fjár­fest­inga­sjóður­inn CVC Capital Partners, Tema­sek, sem er sjóður í eigu rík­is­stjórn­ar Singa­pore, og Vatera Healt­hcare Partners, í Banda­ríkj­un­um. Hér fyrir neðan er yfirlýsingin í heild:

Forsvarsmenn Alvogen hafa ætíð haldið því fram að Róbert, sem er stofnandi og forstjóri fyrirtækisins, hafi aldrei átt hlut í því frá því að það var stofnað árið 2009. Ásamt Róberti komu að stofnun þess samstarfsmenn hans frá þeim tíma er hann var forstjóri lyfjafyrirtækisins Actavis og hefur því verið haldið fram að eignarhaldið á félaginu hafi verið á höndum þeirra, einkum Árna Harðarsonar, lögmanns og aðstoðarforstjóra Alvogen. Hefur eignarhaldinu verið stillt upp í gegnum net félaga sem flest bera heiti sem hefjast á orðinu „Aztiq“. Fjárfestingarsjóðurinn sem heldur utan um hlutinn, og er undir stjórn Róberts, nefnist Aztiq Pharma Partners og vistað er í Lúxemborg. Það félag er hins vegar í eigu Aztiq Finance Holding í Lúxemborg sem aftur er í eigu Aztiq Partners AB í Svíþjóð.

Róbert Wessman.
Róbert Wessman. Aðsend mynd/Sigurjón Ragnars

Hlutafjáraukning sjálfseignarsjóðs sýnir á spilin

Upplýsingar sem Morgunblaðið hefur aflað sýna hins vegar svart á hvítu að eignarhaldið á Aztiq Partners AB í Svíþjóð er ekki ótengt persónulegum umsvifum Róberts Wessman. Þannig sést að félagið er að 24% hluta í eigu Aztiq Pharma ehf., sem er félag á Íslandi í eigu félaga undir stjórn Árna Harðarsonar og Bandaríkjamannsins Divya Patel. 74% hlutur í Aztiq Partners AB er hins vegar í höndum eignarhaldsfélagsins Hexalonia Holdings í Lúxemborg. Það félag er aftur í eigu Hexalonia Investments á Jersey sem svo er í 100% eigu sjálfseignarsjóðsins Hexalonia Trust sem einnig var stofnað til á aflandseyjunni litlu norður af Normandí.

Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, staðfestir að Hexalonia Holdings í Lúxemborg haldi á 74% hlut í Aztiq Partners AB og að eignarhluturinn sé kominn til vegna fjármagns sem Hexalonia hafi lagt inn í félagið í formi nýs hlutafjár seint á árinu 2015. Sú hlutafjáraukning, sem byggðist á verðmætum sem Róbert lagði inn í HT við stofnun þess fyrrnefnt ár, tryggja honum 74% eignarhlut í félagi sem heldur á 30% hlut í Alvogen.

Sjálfseignarsjóður til hagsbóta fyrir fjölskyldu Róberts

Morgunblaðið hefur undir höndum stofngögn félagsins Hexalonia Trust (HT) á Jersey sem á fyrrnefndan 30% hlut í Alvogen.

HT var stofnað í lok nóvember 2015 í því skyni að halda utan um verðmæti sem ætlunin er að nýtist til hagsbóta fyrir fjölskyldu Róberts í framtíðinni. Sjálfseignarsjóður er formlega í forsjá lögmanna á vegum fjármálafyrirtækisins Ogier á Jersey. Sérfræðingar sem Morgunblaðið hefur rætt við og borið stofnskjölin undir segja hins vegar að fyrirkomulag af þessu tagi sé ætíð af þeim toga að sá sem leggur sjálfseignarsjóðnum til þau verðmæti sem í henni eru vistuð, hafi í raun fulla stjórn á ráðstöfun þeirra þegar upp er staðið. Afar ólíklegt væri að nokkur myndi afsala sér umráðum yfir slíkum verðmætum nema að nafninu til.

Í tilviki HT er það Róbert Wessman sem ekki aðeins er skilgreindur sem þiggjandi verðmætanna (beneficiary) ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni og börnum, heldur einnig stjórnandi þeirra (first power holder) sem að lokum ræður ráðstöfun þeirra verðmæta sem umsjónarmennirnir (trustees) hafa með höndum.

Árni Harðarson, hafnar því hins vegar að Róbert hafi stjórn á þeim verðmætum sem lögð voru inn í HT á sínum tíma og þar með að Róbert sé raunverulegur eigandi að Hexalonia-félögunum á Jersey og í Lúxemborg sem aftur eiga 74% hlut í Aztiq Partners í Svíþjóð. Stofnun Hexalonia hafi þann kost að Róbert geti tryggt að ráðstöfun fjármuna úr sjóðnum fari ekki til annarra en erfingja til framtíðar og þó um leið sé fórnað ákveðnu skattalegu hagræði.

Árni segir enn fremur að form slíkra sjóða sé, á sama veg og gildir um sjálfseignarstofnanir á Íslandi, þannig að Róbert afsali sér að fullu rétti til eignahalds, ákvarðana eða ráðstafana varðandi eignir sjóðsins og sé þannig ekki eigandi þeirra eigna er undir sjóðinn falla og getur ekki undir neinum kringumstæðum ráðstafað eignum hans.

Gríðarleg verðmæti í Alvogen

Samkvæmt nýlegu viðtali við Róbert sem birtist í tímaritinu World Finance kemur fram að Alvogen framleiði um 350 tegundir lyfja og að tekjur þess á árs grundvelli sé yfir 1,1 milljarður dollara, jafnvirði 110 milljarða íslenskra króna. Þar sem Alvogen er ekki skráð á markað er í raun flest á huldu um raunverulegt virði þess. Hlutir í fyrirtækinu hafa hins vegar gengið kaupum og sölum á síðustu árum í nokkrum stórum viðskiptum. Árið 2015 var talið að fyrirtækið væri metið á 2 milljarða dollara, jafnvirði 200 milljarða króna en heimildarmenn innan úr fyrirtækinu sem fréttaveitan Bloomberg ræddi við undir lok septembermánaðar í fyrra segja fyrirtækið nú metið á um 4 milljarða dollara. Reynist það rétt hefur fyrirtækið tvöfaldast í virði á þremur árum.

Sé mið tekið af eignarhlut Aztiq Partners AB í félögum sem halda á ríflega 30% hlut í Alvogen má því gera ráð fyrir að sjálfseignarsjóðurinn sem Róbert Wessman stofnaði til í árslok 2015, til hagsbóta fyrir sig og fjölskyldu sína, haldi á hlut í Alvogen sem metinn er á um 90 milljarða króna. Þá má áætla að hlutur Árna Harðarsonar sé metinn á um 6,4 milljarða króna.

Meirihlutaeigendur að Alvogen eru hins vegar stórir alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir en þar eru stærstir CVC Capital Partners og Temasek Holdings Pte. Þeir komu að fyrirtækinu árið 2015.

Fleiri afar verðmætar eignir

Hexalonia Trust heldur á fleiri afar verðmætum eignum gegnum eignarhaldsfélögin Hexalonia Investment í Lúxemborg og Hexalonia Holdings í Svíþjóð. Þannig á dótturfélag síðastnefnda félagsins, Aztiq Investment Advisory AB annað dótturfélag sem nefnist Alvogen Aztiq AB. Það félag er 100% hluthafi í Fasteignafélaginu Sæmundi (FS). Það félag á tæplega 13 þúsund fermetra byggingu að Sæmundargötu 15-17 í Vatnsmýrinni. Það hús hýsir starfsemi Alvogen og Alvotech á Íslandi. Samkvæmt ársreikningi FS 2016 eru eignir þess 6,9 milljarðar króna. Skuldir félagsins eru hins vegar einnig gríðarlegar og er eigið fé þess neikvætt um 16,4 milljarða. Félagið á byggingarrétt að um 10 þúsund fermetra byggingu til viðbótar við þá sem nú þegar er risin í Vatnsmýrinni.

Hexalonia Holdings í Lúxemborg á einnig félagið Park 66B LLC í Bandaríkjunum. Það félag er skráð fyrir íbúð í 69 hæða stórhýsi við 432 Park Avenue í New York. Í frétt sem birtist á Vísi í september í fyrra er íbúðin metin á 1,7 milljarða króna en að þar af hafi um 1,6 milljarður komið til greiðslu í formi lánsfjár.

Þessar fasteignir í Vatnsmýri og New York eru að fullu og öllu leyti í eigu eignarhaldsfélaga sem eru undir stjórn Hexalonia Trust á Jersey. Þá á sama félag einnig hagsmuna að gæta í byggingaframkvæmdum á Hlíðarenda gegnum eignarhald á félaginu Frostaskjól ehf.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir