Alvarlegir vankantar á fjölda endurskoðana

KPMG er sagt hafa greint og bent á fjárhagsvandræði verktakafyrirtækisins …
KPMG er sagt hafa greint og bent á fjárhagsvandræði verktakafyrirtækisins Carillion of seint. AFP

Eftirlitsstofnanir sem hafa auga með endurskoðunarfyrirtækjum víðs vegar um heim fundu alvarlega vankanta á tveimur af hverjum fimm endurskoðunum sem rannsakaðar voru á síðasta ári. 

Þetta kemur fram í frétt Financial Times sem fjallar um niðurstöður alþjóðlegu stofnunarinnar International Forum of Independent Audit Regulators (IFIAR). Stofnunin samanstendur af 52 eftirlitsstofnunum víðs vegar um heim. Hún gerði úttekt á endurskoðunum sem sneru að flóknum málum eins og stórum samrunum eða yfirtökum. Niðurstöðurnar voru að á 40% af þeim 918 endurskoðunum sem voru rannsakaðar fundust alvarlegir vankantar. 

Samkvæmt úttektinni var algengast að ekki væri metið hversu raunhæfar forsendur væru og næstalgengast var að sannreyna ekki nákvæmni gagna sem stjórnir fyrirtækjanna lögðu fram. Þá voru endurskoðunarfyrirtækin í nokkrum tilfellum ekki óháð vegna fjárhagstengsla við viðskiptavini. 

Í frétt Financial Times segir að niðurstöðurnar geti magnað áhyggjur af endurskoðunarferlinu sem hefur verið í sviðsljósinu síðustu mánuði eftir röð stórfelldra mistaka. Er gjaldþrot breska verktakafyrirtækisins Carillion nefnt í því samhengi en endurskoðunarfyrirtækið KMPG er nú til rannsóknar vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK