Strætó hagnaðist um rúmar 10 milljónir króna

mbl.is/Hanna

Afkoma Strætó á árinu 2017 var jákvæð um 10,4 milljónir króna en hún er lituð af uppgjöri við Brú lífeyrissjóð og kostnaði vegna dómsmála. 

Rekstrarafgangur án afskrifta, einskiptiskostnaðar og vaxtatekna var um 555 milljónir króna fyrir árið 2017. Einskiptiskostnaður upp á 377 milljónir er tilkominn vegna 254 milljóna króna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð og 123 milljóna króna kostnaðar vegna dómsmála.

Heildarrekstrarkostnaður almenningsvagna og leiðakerfis var um 210 milljónum króna undir áætlun. Kostnaður við eigin akstur var heldur lægri en gert var ráð fyrir, sem skýrist af lægri kostnaði við viðhald, varahluti og minni olíunotkun.

Fargjaldatekjur Strætó jukust um 69 milljónir króna milli ára, eða um 3,8%. Tekjurnar voru hins vegar 2,4% lægri en áætlun gerði ráð fyrir en ástæður þess má einna helst rekja til minni sölu nemakorta fyrir 18 ára og eldri. Heildarfargjaldatekjur Strætó fyrir árið 2017 voru 1.889 milljónir króna. Vægi fargjaldatekna af heildarrekstrarkostnaði er 33,5%.

Árið 2016 var gengið frá kaupum á níu rafmagnsvögnum fyrir um 620 milljónir króna og fimm í byrjun árs 2018. Áætlun  gerði ráð fyrir að vagnarnir sem keyptir voru 2016 kæmu til landsins 2017 en töluverðar tafir hafa orðið á afhendingu þeirra.  Nú er gert ráð fyrir að fyrstu fjórir vagnarnir komi til landsins í mars 2018. 

Fjöldi korthafa árið 2017 var 14.800 en árið 2015 voru þeir 12.300. Fjölgunina má m.a. rekja til nýrra árskorta fyrir ungmenni, aldraða og áskriftamöguleika í appinu. Fjöldi ferða 2017 eru um 11,7 milljónir samkvæmt farþegatalningu og er það aukning um 1 milljón ferða frá árinu 2015.

16% erlendra ferðamanna notuðu Strætó á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt könnun Gallup sem gerð var í ágúst 2017. Notendum Strætóappsins fjölgaði um 8% á milli ára og má aukninguna m.a. rekja til fleiri erlendra ferðamanna sem nota appið. 13% færslna í appinu fara í gegnum erlend greiðslukort en þetta hlutfall var 5% árið 2016. 

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir