Virði Facebook fallið um 5.800 milljarða

Höfuðstöðvar Cambridge Analytica eru við Oxford-stræti í miðborg London.
Höfuðstöðvar Cambridge Analytica eru við Oxford-stræti í miðborg London. AFP

Vikan hefur verið stormasöm hjá Mark Zuckerberg og félögum hjá Facebook en fyrir viku greindu fjölmiðlar frá því að breskt ráðgjafarfyrirtæki, Cambridge Ana­lytica, hefði nýtt per­sónu­upp­lýs­ing­ar 50 millj­ón Face­book not­enda til að út­búa um­fangs­mik­inn gagna­grunn um banda­ríska kjósendur, að því er virðist án vitn­eskju Facebook. Gagna­grunn­ur­inn hafi síðan verið notaður til að reyna að fá ókveðna kjós­end­ur til að kjósa Don­ald Trump í banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um haustið 2016.

Uppgötvunin hefur fallið í grýttan jarðveg meðal margra notenda miðilsins sem og auglýsenda og hafa hluthafar ekki farið varhluta af því. Virði félagsins hefur á einni viku lækkað um 58 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 5800 milljarða króna, eða um tíu prósent af virði fyrirtækisins. Sú upphæð jafngildir landsframleiðslu Íslands í tvö og hálft ár. BBC greinir frá.

Facebook.
Facebook. AFP

Þónokkur fyrirtæki hafa ákveðið að hætta að auglýsa á samfélagsmiðlinum, meðal annars Mozilla, félagið bak Mozilla Firefox-vafranum. Þá hefur frumkvöðullinn Elon Musk eytt Facebook-síðum fyrirtækja sinna, SpaceX og Tesla.

Segir Facebook fórnarlamb

Í viðtali við CNN á dögunum baðst Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, afsökunar á gagnalekanum og sagði Facebook hafa verið svikið. Þá sagði hann mikilvægustu skrefin til að koma í veg fyrir að svipað mál komi upp þegar hafa verið tekin.

Ekki eru þó allir jafnsannfærðir um heilindi Facebook. Skömmu eftir að Chris Wylie, fyrrverandi starfsmaður Cambridge Analytica, lak gögnum í fjölmiðla um starfsemi fyrirtækisins var aðgangi hans að samfélagsmiðlinum eytt. Ákvörðun sem margir furða sig á.

„Það tók fyrirtækið fimm daga að gefa út yfirlýsingu, sem var rökrétt og yfirgripsmikil. Það er alltof langur tími,“ segir Eileen Burbidge tæknifjárfestir, sem á sæti í viðskiptaráði bresku ríkisstjórnarinnar. Zuckerberg hefur einmitt verið kallaður fyrir þingnefndir, bæði á breska þinginu og á Evrópuþinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK