Tíu stærstu í HB Granda eiga 83%

Eignarhald HB Granda þykir nokkuð þröngt miðað við skráð félag á hlutabréfamarkaði. Stærstu þrír hluthafarnir fara saman með 56% hlut, stærstu tíu með 83% og stærstu 20 ráða yfir 93% hlutafjár útgerðarinnar, samkvæmt hluthafalista.

Brim, sem stýrt er af Guðmundi Kristjánssyni, keypti fyrir skemmstu 34% hlut í HB Granda fyrir 21,7 milljarða króna af Vogun og Fiskveiðifélaginu Venusi, sem Kristján Loftsson fer fyrir.

Samkvæmt reglum Kauphallarinnar mega fjárfestar ekki eignast meira en 30% hlut í skráðu félagi nema að gera öðrum hluthöfum sambærilegt yfirtökutilboð. Þegar Vogun og Venus eignuðust hlutinn var ekki miðað við að yfirtökuskylda myndaðist við 30% eignarhlut. Tilboð Brims var lagt fram hinn 18. apríl. Yfirtökutilboð hefur ekki borist öðrum hluthöfum en þrjár vikur eru þar til tilboðsfrestur rennur út.

HB Grandi má vera skráður á hlutabréfamarkað jafnvel þótt Brim eignist stærri hlut í HB Granda. William Demant átti til dæmis um 50% hlut í Össuri þegar félagið var skráð á Aðallistann.

Eiga 44% í HB Granda

Lífeyrissjóðir eiga samanlagt 44% hlut í HB Granda, samkvæmt hluthafalista. Forsvarsmenn þeirra sem Morgunblaðið ræddi við segja of snemmt að kveða upp úr hvort þeir hyggist taka yfirtökutilboðinu eða ekki.

Sérfræðingar á markaði reikna með því að lífeyrissjóðir hafi almennt áhuga á að eiga áfram í útgerðinni. Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnuvegur á Íslandi og HB Grandi sé eina útgerðin sem þeir eigi í. Þeim bjóðist almennt ekki að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þá vaknar spurningin hvað aðrir fjárfestar kjósa að gera. Eflaust þykir einhverjum yfirtökutilboðið vænlegt. Ef það fækkar í hluthafahópi HB Granda mun það draga úr seljanleika bréfanna. Það þýðir að það geti tekið lengri tíma að selja hlutabréfin og eykur líkurnar á að að sala gæti hreyft við gengi bréfanna.

Umsvifamikill fjárfestir

Guðmundur hefur verið óragur við fjárfestingar í sjávarútvegi. Árið 1998 skiptu þeir feðgar, þ.e. Guðmundur, bróðir hans Hjálmar og faðir þeirra, Kristján Guðmundsson, upp rekstri sínum á Rifi og tók Guðmundur við rekstri Útgerðarfélagsins Tjalds. Í upphafi gerði félagið út einn línubát. Ári síðar var útgerðin Básafell keypt sem seinna rann inn í Tjald. Við kaupin eignaðist útgerðin tvo rækjufrystitogara. Rækjuveiðar gengu erfiðlega á þeim tíma og hætti félagið rekstri rækjuskipanna fáeinum árum síðar. Guðmundur lagði þó ekki árar í bát heldur keypti frystitogara skömmu síðar.

Árið 2002 gengu bræðurnir í hluthafahóp Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og eiga þar um þriðjungshlut. Bræðurnir hafa um árabil átt í deilum við meirihlutaeigendur félagsins. Nú síðast vildi Guðmundur, sem er stjórnarmaður í Vinnslustöðinni, ekki staðfesta ársreikning félagsins.

Keyptu ÚA af Eimskipi

Það vakti athygli þegar Guðmundur, ásamt föður sínum og bróður, keypti Útgerðarfélag Akureyrar fyrir níu milljarða árið 2004 af Eimskipi. Þá gerði félagið út fimm ísfisktogara. Árið 2011 keypti Samherji eignir Brims á Akureyri fyrir 14,5 milljarða króna. Morgunblaðið sagði á þeim tíma frá því að ástæða sölunnar hefði verið að grynnka á skuldum Brims. Um var að ræða tvo ísfisktogara, veiðiheimildir og fiskvinnslu.

Árið 2013 keypti Brim minnihluta í grænlenska sjávarútvegsfyrirtækinu, Arctic Prime Production A/S. Það rekur þrjár fiskverkanir og gerir út tvo línubáta og frystitogara. Fram kom í Morgunblaðinu að velta þess á þeim tíma hefði svarað til rúmlega eins milljarðs króna.

Brim keypti starfsemi Icelandic Group í Asíu árið 2015. Útgerðin hafði verið stór viðskiptavinur Icelandic Group á mörkuðum í Asíu. Vörumerkið Icelandic Seafood fylgir ekki með í kaupunum. Ári síðar keypti Brim Ögurvík sem gerir út einn frystitogara.

Samanlagt tengist Brim 20,3% allra aflahlutheilda á markaði eftir kaupin á hlutnum í HB Granda. Lögum samkvæmt mega útgerðir ekki eiga meira en sem nemur 12% kvótans. Þrátt fyrir kaup Brims á ríflega þriðjungshlut verða fyrirtækin væntanlega ekki talin tengd í skilningi laganna. HB Grandi á 10,9% aflahlutdeilda, Brim 3,5%, Ögurvík á 1,5% og Vinnslustöðin á 4,4%.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK